Venus og Marz

Greinar

Víglína Evrópu og Ameríku liggur þvert um Ísland. Annars vegar vill Verzlunarráðið lækka skatta í 15% og rústa velferðinni að bandarískum hætti og hins vegar vilja aðrir verja arfleifð velferðarinnar, þótt hún geti að sumu leyti staðið í vegi framfara hins óhefta markaðshagkerfis.

Sumir vilja leysa vandamál með samningum við umheiminn, aðrir vilja fara í stríð við hann. Sumir leggja mesta áherzlu á frístundir, aðrir setja vinnuna í æðri sess. Sumir vilja sem mestan hagvöxt í krónum, en aðrir meta meira önnur gildi, sem ekki verða mæld í peningum, svo sem umhverfið.

Á öllum þessum sviðum og mörgum fleirum er vaxandi gjá milli Evrópu og Ameríku. Í Evrópu hallast menn í auknum mæli að umhverfisvernd, atvinnuleysisbótum, ókeypis heilsuvernd og skólum, auknum frístundum, hóflegri vinnuþrælkun, samstarfi við samfélagið og háum sköttum, samningum í alþjóðamálum.

Á sama tíma hallast Bandaríkin í auknum mæli að óheftu athafnafrelsi, minnkandi umhverfisvernd, afnámi alls konar bóta velferðarkerfisins, aukinni vinnuþrælkun, stríði hvers og eins við samfélagið í heild og stríði samfélagsins við umheiminn. Meðan Evrópa verður Venus verða Bandaríkin Marz.

Enginn vafi er á, að hagvöxtur er meiri í Bandaríkjunum en í Evrópu. Hins vegar skilar hann sér ekki til almennings, heldur fer allur til hinna ríku. Rannsóknir hafa sýnt hver á fætur annarri, að þjóðum á borð við Frakka og Svía líður töluvert miklu betur andlega en Bandaríkjamönnum og Bretum.

Venusarstefna Evrópu mótast sumpart af því, að Evrópusamband hefur leyst styrjaldir af hólmi í álfunni, kalda stríðinu er lokið og álfan þarf ekki lengur hernaðarlega regnhlíf af hálfu Bandaríkjanna. Í Vestur-Evrópu hefur sárri fátækt verið nánast útrýmt, meðan hún fer vaxandi í Bandaríkjunum.

Evrópa er orðin að friðarparadís. Hvarvetna eru sumarhátíðir um þetta leyti. Fólk slakar á, á sama tíma og streitulyfið prozak er samkvæmt nýrri mælingu farið að menga vatnsból í engilsaxnesku ríkjunum. Evrópa sækist eftir samhljómi milli fólks, menningarlegri fjölbreytni, alþjóðlegu samstarfi.

Bandaríkjamenn segja þetta gerast í skjóli bandarísks hervalds. Evrópumenn geti slakað á, af því að Bandaríkin standi vaktina um allan heim gegn illum öflum, sem berjist gegn Vesturlöndum, svo sem al Kaída, múslímum, sjítum, Palestínu, Íran, Norður-Kóreu og svo framvegis endalaust.

Kaldrifjuð efnishyggja að hætti Bandaríkjanna hefur sótt fram hér á landi í andrúmslofti, sem til þessa hefur verið aðallega evrópskt. Fyrr eða síðar verður Ísland að velja.

Jónas Kristjánsson

DV