Verð endurspegli gæði.

Greinar

Þegar íslenzk fiskiskip sigla með afla, fer fiskurinn yfirleitt á heildsölumarkað, sem endurspeglar framboð og eftirspurn. Bezti fiskurinn er seldur á svimandi háu verði, en lítið sem ekkert fæst fyrir hinn lakasta.

Á fiskmörkuðum erlendra löndunarhafna eru samt ekki sveitir opinberra eftirlitsmanna til að meta fisk til gæða og verðs. Aðhaldið felst í sveiflum markaðsverðsins, sem framkalla bæði mestu gæði og nákvæmar tímasetningar í löndun.

Við búum hins vegar hér heima við einkar flókið kerfi, – verðjöfnunarkerfi með þátttöku ríkisvaldsins. Svo virðist sem þetta kerfi hafi rofið hin nauðsynlegu tengsl milli kaupenda og seljenda á ýmsum stigum málsins.

Í hæstu verðflokkum getur farið gegnum kerfið fiskur, sem neytandinn í Bandaríkjunum fúlsar svo við, þegar ætlazt er til, að hann kaupi dýrum dómum og vilji síðan frekari viðskipti. Skilaboð um svörun hans ganga treglega til upprunans.

Hér ákveður sérstök yfirnefnd verð og verðflokka með atkvæðum oddamanns ríkisstjórnarinnar og einhvers málsaðilans. Síðan raða opinberir matsmenn hinum landaða fiski í þessa verðflokka án þess að hafa stuðning af skýrum mælikvörðum.

Málið verður flóknara fyrir þá sök, að víða eru seljandi og kaupandi í raun sami aðilinn, sem gæti haft hag af því að reyna að fleka sölusamtökin til að taka við vöru, sem ekki er eins góð og matið fullyrðir.

Ástæða er til að ætla, að allt þetta kerfi sé verulega gallað. Það sýna umræður í kjölfar birtingar Fiskifélags Íslands á umdeildum prósentutölum um gæðaflokkun afla úr einstökum skipum og eftir einstökum veiðiaðferðum.

Fyrst er að nefna, að verðmunur á gæðaflokkum er áreiðanlega allt, allt of lítill. Hann endurspeglar ekki aðeins gæði, heldur einnig pólitíska tillitssemi við ákveðin sjávarpláss, ákveðnar veiðiaðferðir og ákveðna fjárfestingu.

Of lítill verðmunur gæðaflokka er óbeinn stuðningur við netaútgerð, sem nær aðeins 70% aflans í efsta gæðaflokk, og við togaraútgerð, sem nær aðeins 90% aflans í þennan flokk, meðan línu- og handfæraútgerð ná 100%.

Dæmi togaranna er raunar heldur verra en prósentutalan segir. Afli þeirra er svo mikill, að hann er lengi í vinnslu í landi. Er hann þá oft orðinn mun síðri að gæðum á síðasta vinnsludegi en hann var á löndunardegi.

Settar hafa verið fram óskir um, að bannaður verði allur tveggja og þriggja nátta netafiskur, svo og netafiskur af of miklu sjávardýpi. Ennfremur, að bannaður verði eldri togarafiskur en einnar viku gamall.

Til viðbótar hafa verið settar fram óskir um, að löndunum togara sé hagað svo, að vinnslu afla sé lokið fyrir helgi, svo og að helgarvinna verði heimiluð, ef þetta tekst ekki. Fyrirstaða er gegn öllum slíkum óskum.

Lög um slík atriði og hreinar lögregluaðgerðir í kjölfar þeirra geta verið nauðsynleg forsenda betri söluvöru í sjávarútvegi. Enn betra væri þó, að hin opinbera verðflokkun endurspeglaði átakalaust raunverulegan gæðamun, ekki bara hluta hans.

Bezt væri þó, ef hægt væri að koma hér á beinu samhengi milli verðs og gæða, sem menn þekkja frá erlendum fiskmörkuðum, svo að veiði- og vinnsluaðilar fái þann verðmun, sem markaðurinn vill borga fyrir gæðamun þessarar sömu vöru.

Jónas Kristjánsson.

DV