Verðbólgan er hafin að nýju

Greinar

Verðbólga má ekki vera meiri hér en í helztu viðskiptalöndum okkar. Umframverðbólga veldur slakari samkeppnisstöðu atvinnuvega og þrýstir upp vöxtum, sem spilla samkeppnisstöðunni enn frekar, svo að úr verður vítahringur ótraustra efnahagsmála.

Um þessar mundir er verðbólga lítil í umheiminum, innan við 2% í viðskiptalöndum okkar. Annars vegar er lítil verðbólga hefðbundin í Bandaríkjunum og hins vegar hefur Vestur-Evrópa náð verðbólgu niður með markvissum aðgerðum til að koma á fót evrunni.

Við höfum ekki agann af evrunni og erum þar á ofan að sigla inn í kosningaár með tilheyrandi losi á bremsum stjórnvalda. Verðbólga verður hér örugglega yfir 3% á árinu og getur hæglega farið yfir 5%. Þetta kemur fram í spám ýmissa stofnana, erlendra sem innlendra.

Að venju eru Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki húsbóndahollar stofnanir, sem ekki vilja valda ríkisstjórninni hugarangri. Þær hafa látið frá sér fara allt of lágar verðbólguspár út í hött og framkalla þannig beinlínis verðbólgu með því að svæfa stjórnvöld á verðinum.

Það er sérstaklega ámælisvert, að íslenzki Seðlabankinn skuli ekki haga sér eins og óháður seðlabanki, svo sem hefur verið í Bandaríkjunum og Þýzkalandi og nú síðast í Bretlandi, eftir að Tony Blair komst til valda. Háður seðlabanki er hættulegur seðlabanki.

Þenslan er orðin svo mikil hér á landi, að vaxtastigið er orðið óraunhæft. Nauðsynlegt að hækka vexti sem allra fyrst og það verulega, en skaða má þjóðina enn frekar með því að fresta hækkuninni fram yfir kosningar til þess að valda ekki óróa á viðkvæmum tíma.

Verðbólgan á Íslandi stafar af ýmsum ástæðum. Einna veigamest er sveiflan af velgengni sjávarútvegs, sem bylgjast um allt þjóðfélagið. Kvótasölu-gróðakerfið magnar sveifluna enn frekar með því að draga peninga til verðbólguhvetjandi fjárfestingar af ýmsu tagi.

Stóriðjudraumar ríkisstjórnarinnar stuðla að óhóflegum athafnavilja. Bjartsýnir slá lán til framkvæmda og vélakaupa. Þeir reikna með að fyrirhuguð stóriðju- og stórvirkjanavelta fleyti sér út úr skuldunum. Almenningur smitast af þessu og sukkar meira en ella.

Margt fleira leggst á sömu sveif. Hagkerfið er lokaðra en vestræn hagkerfi og býður upp á óhagkvæma spillingu. Þannig kemst Eimskip upp með að niðurgreiða pappír fyrir Skeljung í símaskrána og Landssíminn með að afhenda prentsmiðjunni Odda verkið án útboðs.

Í skjóli ríkisrekstrar og innflutningshafta hefur landbúnaðinum tekizt að hækka afurðir sínar í vetur og stuðla þannig að verðbólgu. Þetta fyrirkomulag getur eitt út af fyrir sig komið í veg fyrir, að Ísland taki sæti með alvöruríkjum verðfestu og trausts efnahags.

Ríkisstjórnin hefur ekki hagað málum sjávarútvegs og landbúnaðar á þann hátt, að þaðan komi ekki verðbólga inn í þjóðfélagið. Hún hefur klúðrað ýmsum þáttum einkavæðingar á þann hátt, að einokun hefur haldizt og verðlag einkavinavæðingar hefur hækkað.

Ríkisstjórnin er uppiskroppa með ýmsar aðrar verðbólgubremsur, sem hafa gefizt henni vel á undanförnum árum. Hún bilar núna, þegar röðin ætti að koma að frjálsræðisaðgerðum í sjávarútvegi og landbúnaði og málefnum, sem varða hagsmuni kolkrabbans.

Í slíkri stöðu er afleitt, að helztu stofnanir efnahagsmála skuli vera svo vanþróaðar, að þær taka tillitssemi við ríkisstjórn fram yfir heiðarlegar efnahagsspár.

Jónas Kristjánsson

DV