Verðbólgan er komin í gang

Greinar

Við þurfum að hafa gát á góðærinu. Verðbólgan fór að láta á sér kræla í febrúar. Ef svo fer fram eftir árinu, kemst ársbólgan í 5%, sem er geigvænlegt, þrisvar til fjórum sinnum meira en meðaltalsverðbólga helztu viðskiptalanda okkar í Evrópu, Ameríku og Japan.

Verðbólga er slæmur fylgifiskur góðæris, en alls ekki óhjákvæmilegur. Norðmenn hafa til dæmis búið við langvinnt góðæri, en gæta þess jafnan að hafa verðbólguna á sama róli og aðrar þjóðir. Annars aflagast gjaldmiðillinn og samkeppnishæfnin á alþjóðamarkaði.

Þjóðhagsstofnun spáir að vísu ekki 5% verðbólgu á þessu ári, heldur 2,7%. Hún reiknar með, að verðbólgan haldi ekki áfram með sama hraða og í febrúar. En 2,7% verðbólga er einnig allt of mikil, nákvæmlega tvöföld verðbólga helztu viðskiptalanda okkar.

Flest annað gengur okkur í haginn um þessar mundir. Kaupmáttur fer ört vaxandi. Hann hefur aukizt um 14% samanlagt á þremur árum og mun væntanlega aukast enn um 5­6% á þessu ári. Þetta felur í sér gífurleg og snögg umskipti á lífskjörum fólks.

Bætt staða almennings á ekki að þurfa að leiða til verðbólgu. Vandamálið felst í, að hér er verið að gera fleiri hluti í einu. Á sama tíma og kaupmáttur er aukinn, er líka verið að vernda herkostnað við forna atvinnuhætti og varðveita dýrtíð af völdum fáokunar.

Bætt lífskjör og stöðugt verðlag hafa haldizt í hendur í þrjú ár, af því að létt hefur verið á samkeppnishömlum. Ýmis vara og þjónusta hefur lækkað í verði. Þessi hagstæða þróun hefur verið að fjara út í vetur. Því þurfa stjórnvöld að losa um fleiri hömlur á samkeppni.

Atvinnleysi fer minnkandi og er nú komið niður í 3,6% að meðaltali yfir árið. Þetta er mun minna en þekkist í flestum nágrannalöndum okkar og þýðir í rauninni, að fleiri störf séu laus en sem svarar hinum atvinnulausu. Lengra verður tæpast komið að óbreyttu.

Aðeins með endurmenntun og starfsþjálfun er unnt að hraða flutningi fólks úr samdráttarstörfum yfir í þenslustörf og lækka þannig atvinnuleysistölurnar. Ríkið getur lagt hönd á þennan plóg rétt eins og það getur rutt hindrunum úr vegi innlendrar samkeppni.

Viðskiptahalli verður allt of mikill á þessu ári að mati Þjóðhagsstofnunar, tvöfaldur árshalli tveggja síðustu ára. Eins og verðbólgan er þetta merki um, að lífskjörin séu að batna hraðar en efni standa til. Þessu þarf að breyta, en ekki með að hægja á lífskjarabatanum.

Unnt er að framlengja góðærið án þess að auka viðskiptahallann og vekja verðbólguna að nýju. Það geta stjórnvöld gert, ef þau vilja. Þau geta dregið úr einokun og fáokun með því að bæta samkeppnisskilyrði og þau geta stuðlað að símenntun þjóðarinnar.

Stjórnvöld geta til dæmis hætt afskiptum af landbúnaði umfram aðra atvinnuvegi. Þau geta boðið út fiskveiðikvótann á alþjóðamarkaði. Þau geta selt bankana. Þau geta tekið upp evru sem gjaldmiðil. Þau geta gert stafræn viðskipti og samskipti ódýrari en nú.

Verðbólgan í febrúar og viðskiptahallinn sýna nefnilega, að við erum komin upp að þaki í bættum lífskjörum. Lengra verður ekki haldið í lífskjarasókninni án mikilvægra breytinga á sjálfri þjóðfélagsgerðinni, svo sem þeirra, sem nefndar voru hér að ofan.

Við getum haft til marks um, að við séum komin á rétta leið, þegar ársverðbólgan kemst niður í þau 1,3%, sem hún er að meðaltali í Evrópusambandinu.

Jónas Kristjánsson

DV