Verðmætt kálfafóður

Greinar

Aðalfundur Stéttarsambands bænda samþykkti í síðustu viku að hvetja bændur til að draga ekki úr framleiðslu mjólkur. Þetta lýsir sérstæðum skoðunum stjórnenda landbúnaðarins á því, hver sé hæfilegur markaður fyrir mjólkurvörur.

Nærri helmingur allrar mjólkur á Íslandi fer í vinnslu af ýmsu tagi. Sú vinnsla er í flestum tilvikum svo rosalega dýr, að afurðirnar væru óseljanlegar, ef þær þyrftu að sæta samkeppni við hliðstæðar vörur innfluttar.

Verst er ástandið í smjörinu. Neytendur og skattgreiðendur þurfa að borga fyrir það um það bil tíu sinnum hærra verð en væri á innfluttu smjöri, ef markaðurinn væri frjáls.

Í vetur eiga að hefjast umfangsmiklir flutningar á mjólkurvörum á milli landshluta. Það stafar ekki af skorti á neyzlumjólk á einokunarsvæði Mjólkurbús Flóamanna, heldur er það til að gera búinu kleift að framleiða duft úr undanrennu.

Flutningar þessir eiga að kosta um tvær milljónir króna. Ofan á vinnslukostnað, sem nemur rúmum sjö krónum á kílóið, á að koma fjórtán króna flutningskostnaður. Þar með komast tveir kostnaðarliðir upp í 21 krónu á kílóið.

Þetta duft er síðan selt ofan í kálfa fyrir tæpar þrettán krónur á kílóið. Mismunurinn verður greiddur úr svokölluðum flutningsjöfnunarsjóði, sem er þáttur í verðlagningu búvöru, auðvitað greiddur af neytendum og skattgreiðendum.

Hinir fyrirhuguðu flutningar á undanrennu eru gott dæmi um takmarkalausa óskammfeilni ráðamanna landbúnaðarins. Þeir líta á neytendur og skattgreiðendur sem viljalausa þræla í eigu landbúnaðar kúa og kinda.

Um leið eru flutningarnir alvarlegur vitnisburður um svokallaða framleiðslustjórnun í hinum hefðbundna landbúnaði kúa og kinda. Stjórnunin felst í að framleiða mjólk við Lómagnúp og kindakjöt í Mosfellssveit.

Auðvitað samþykkti aðalfundur Stéttarsambands bænda, að slík framleiðslustjórnun með tilheyrandi margföldun flutningskostnaðar yrði einnig tekin upp í framleiðslu kjúklinga, eggja, svínakjöts og annarra óæðri búgreina.

Kjúklinga-, eggja- og svínabændur eru auðvitað ekki taldir menn með mönnum í þessum hópi. Þeir hafa ekki einu sinni málfrelsi á fundum Stéttarsambandsins, hvað þá tillögu- og atkvæðisrétt. Þar gilda aðeins kýr og kindur.

Enginn mannlegur máttur virðist geta komið í veg fyrir, að ráðamenn landbúnaðarins komi á fót framleiðslustjórnun í fleiri búgreinum. Eggjaeinkasalan verður fyrsta skrefið og síðan mun svínakjötseinkasalan fylgja í kjölfarið.

Þá verður hafin framleiðsla á eggjum í smáum stíl í afdölum sem lengst frá markaðinum. Hinn mikli kostnaðarauki verður reiknaður inn í verðið, fyrst á kostnað neytenda og síðan einnig skattgreiðenda, þegar niðurgreiðslurnar koma.

Ævintýri á borð við flutninga kálfafóðurs milli landshluta eru einmitt að hefjast í þann mund, er tekjur heimilanna hafa skerzt um 20% eða meira. Þannig ríkir hinn hefðbundni landbúnaður utan og ofan við íslenzkan raunveruleika.

Spurningin er, hvort neytendur og skattgreiðendur rísi einhvern tíma upp eins og húsbyggjendur og -kaupendur gerðu um daginn. Munu þeir einhvern tíma varpa af sér okinu?Jónas Kristjánsson

DV