Verðstríð að tjaldabaki.

Greinar

Árangur frekjunnar í Sir Freddie Laker og samkeppnisstefnu Carters Bandaríkjaforseta er að koma í ljós, ekki bara vestanhafs og yfir Atlantshafinu, heldur um heim allan. Alþjóðasamband flugfélaga er í rauninni sprungið.

Að baki hinna formlegu, háu fargjalda, sem hin evrópsku og offeitu ríkisflugfélög hafa knúið fram, geisar nú algert verðstríð að tjaldabaki. Jafnvel virðulegt einokunarfélag eins og British Airways gengur berserksgang.

Það er alveg komið úr móð, að farþegar greiði hin háu fargjöld, sem Alþjóðasambandi flugfélaga tókst að koma á með ærinni fyrirhöfn. Hér á Íslandi þekkjum við aðeins fyrstu bilunareinkennin, apex-fargjöldin og almennu sérfargjöldin.

Nú tíðkast mjög að búa til ímyndaða hópa, sem ferðast á hópfargjöldum. Þessir hópar eru lognir upp og nöfn jafnvel fölsuð til að koma tölum upp í sex og tíu. Flugfélögin standa sumpart sjálf fyrir þessum sjónhverfingum.

Einnig eru búnir til ímyndaðir flug- og hótelpakkar, þar sem hótelhlutinn er í rauninni ekki til. Farþegar fá falska hótelpappíra til að framvísa á flugvöllum, ef svo ólíklega vildi til, að þeir yrðu um þá spurðir.

Þá er áætlunarflug rekið undir yfirskini leiguflugs. Tíðni og regla leiguflugsins er þá með þeim hætti, að enginn munur er á því og venjulegu áætlunarflugi, en farþegar ekki rukkaðir nema um brot af fullu fargjaldi.

Ennfremur er búið til apex-fargjald með því að færa aftur á bak dagsetningar á greiðslustimplum. Þetta er ekki aðeins tíðkað á ferðaskrifstofum, heldur hjá flugfélögunum sjálfum, sem eiga auðvelt með að fela þetta í bókhaldi.

Enn ein aðferðin felst í hinum svonefndu Mikka músar farseðlum, sem sýna hinna kórréttu upphæð Alþjóðasambands flugfélaga, þótt farþeginn hafi í raun greitt allt aðra og lægri upphæð. Þetta sýnir, hversu langt flugfélögin ganga í bókhaldi.

Sniðugasta aðferðin byggist á pro-rata kerfinu. Þá eru gefnir út farseðlar fyrir miklu lengri leiðum en farnar eru. Hinum ímynduðu miðum farseðilsins er strax fleygt, en hin farna flugleið reiknuð hlutfallslega af löngu leiðinni.

Víðtækustu undirborðin eru loks rekin með svonefndum “fötu-sjoppum”. Það eru óopinberar ferðaskrifstofur, sem fá undir borðið farseðla frá flugfélögunum, sem sjá fram á að geta ekki fyllt vélar á ýmsum flugleiðum.

Flugfélögin afneita þessu eins og öllum hinum aðferðunum, sem raktar eru hér að ofan. En á sama tíma blómstra sjoppurnar og virðast alltaf eiga nóg af farseðlum á niðursettu verði. Þær auglýsa verðið meira að segja opinberlega.

Öll þessi dæmi sýna, að fargjaldaeinokun Alþjóðasambands flugfélaga er að riðlast. Sir Freddie, brezki Efnahagsbandalags-þingmaðurinn Bethell lávarður og neytendaklúbbur flugfarþega hafa líka gert að því harða hríð.

Framkvæmdaráð Efnahagsbandalagsins hefur neyðzt til að rannsaka kærur þeirra. Og það hefur lagt fyrir ráðherranefnd bandalagsins greinargerð, þar sem fram kemur, að hin háu fargjöld í Evrópu séu brot á stofnskrá bandalagsins.

Hér á Íslandi þekkjum við lítið brot af þessari þróun. Í sumar hefur ríkt samkeppni tveggja flugfélaga á leiðinni til Amsterdam. Þau fargjöld voru mun lægri en fargjöldin til Kaupmannahafnar og London. Og enginn var hissa.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið