Verjandinn er sammála

Greinar

Dæmdur sakborningur með allt á hælunum getur borubrattur sagt, að verjandi sinn sé sér sammála, lögmenn séu sem betur fer ekki alltaf sömu skoðunar, dómarar séu mannlegir og geti gert mistök. Þetta er efnislega það, sem utanríkisráðherra sagði í fjölmiðlum um helgina.

Eini munurinn á utanríkisráðherranum og dæmda sakborningnum er, að sá fyrrnefndi verður ekki settur inn. Hann er þeim mun hortugri, vísar í lögfræðinga utanríkisráðuneytisins, sem telji sig ekki hafa gert neitt af sér með framlengingu flugstöðvarstjóra í eitt ár.

Sá er einn tilverugrundvöllur lögfræðinga ráðuneyta að framleiða eftir pöntun álitsgerðir, sem leiða í ljós sakleysi ráðherra sinna og ráðuneytisstjóra. Þeir hafa alltaf gert það og munu alltaf gera, rétt eins og verjendur hafa alltaf varið skjólstæðinga sína og munu alltaf gera.

Stöðvarstjóramálið er í stuttu máli þannig vaxið, að utanríkisráðherra þurfti að koma framsóknarkvígildi á opinbert framfæri. Hann gerði það í þrepum, fyrst með því að setja manninn í stöðu flugstöðvarstjóra á Keflavíkurflugvelli í eitt ár og síðan framlengja hann í eitt ár.

Þegar loksins verður tekið á umsóknum manna eftir að þessi tími er liðinn, geta ráðherrann og undirmenn hans í stjórn Leifsstöðvar sagt, að framsóknarkvígildið hafi tveggja ára reynslu í starfi og sé vel að því komið, enda hafi aðrir umsækjendur enga reynslu í slíku starfi.

Þá verður þægilega fallið í skuggann, að allir umsækjendur höfðu í upphafi meiri og betri starfsreynslu en framsóknarkvígildið, sem þekkt var fyrir það eitt að hafa komizt upp á kant við landslög. Fyrir næstu kosningar verður utanríkisráðherra sloppinn fyrir horn.

Vafasamt er, að það taki því að henda þetta skítamál enn einu sinni á lofti í leiðara dagblaðs. Engin slík mál hafa nein varanleg áhrif á kjósendur, sem halda sínu striki og endurkjósa jafnan þá, sem spilltastir eru og hafa raunar meira traust á þeim en öðrum pólitíkusum.

Svona hefur þetta alltaf verið. Þegar litið er til baka yfir íslenzkar embættaveitingar, má sjá, að meirihluti allra embættismanna þjóðarinnar eru pólitísk kvígildi, sem ekki gátu unnið fyrir sér með eðlilegum hætti, þegar þau voru skipuð í þakkarskyni fyrir flokkshollustu.

Kjósendur geta ekki varið sig með því, að þeim hafi ekki verið kunnugt um spillingu umboðsmanna sinna í stjórnmálunum. Fjölmiðlar hafa jafnan bent á pólitískar mannaráðningar, en það hefur ekki orðið til siðvæðingar innan stjórnmálaflokkanna eða meðal kjósenda þeirra.

Hluti skýringarinnar kann að vera, að alvörufjölmiðlun á Íslandi er umfangslítil miðað við vestrænar stórþjóðir, þar sem fer fram raunveruleg pólitísk umræða milli álitsgjafa utan stjórnmálaflokka. Þar hefði utanríkisráðherra fengið svo á baukinn, að hann ætti ekki viðreisnar von.

Ef utanríkisráðherra Bretlands eða Bandaríkjanna notaði það opinberlega sem afsökun fyrir framferði sínu, að lögfræðingar ráðuneytisins væru sér sammála, væri það tekið sem dæmi um, að hann væri óhæfur ráðherra. Þjóðfélagið í heild væri sammála um þá niðurstöðu.

Íslenzka ástandið verður óbreytt meðan starfandi félagar helztu stjórnmálaflokka vilja hafa það svona eða sætta sig við það. Þeir breyta ekki viðhorfi sínu fyrr en þeir meta stöðuna svo, að hún muni valda fylgistjóni í kosningum. Ekki hefur enn þótt ástæða til slíks mats.

Spilling í mannaráðningum ríkisins er algerlega á ábyrgð kjósenda, sem meðal annars telja siðblindan utanríkisráðherra vera hinn merkasta stjórnmálamann.

Jónas Kristjánsson

DV