Verjum Hveravelli

Greinar

Með stuðningi landbúnaðar- og umhverfisráðherra hyggjast gróðafíknir Svínvetningar ryðja Ferðafélagi Íslands burt af Hveravöllum og koma þar sjálfir upp umsvifamiklum hótel- og veitingarekstri, sem felur í sér atlögu að einni af helztu náttúruperlum landsins.

Svínvetningar gera þetta í krafti þess, að Hveravellir eru eitt af svæðunum, sem þeir hafa misþyrmt með ofbeit áratugum saman. Vellirnir eru hluti Auðkúluheiðar, sem fræg varð, þegar sauðfé Svínvetninga át jafnóðum umtalsverðan hluta þjóðargjafarinnar frá 1974.

Þá átti að minnast ellefu alda afmælis Íslandsbyggðar með því að snúa vörn í sókn í gróðurbúskap landsins. Það var einkum gert með því að sáldra áburði og fræi á húnvetnskar heiðar, en um leið var sauðfé fjölgað á afréttunum og þjóðargjöfin étin upp til agna.

Guðmundur Bjarnason, landbúnaðar- og umhverfisráðherra, er ætíð tilbúinn að styðja ýtrustu sérhagsmuni í landbúnaði gegn almannahagsmunum, svo sem ótal dæmi sanna. Í þessu máli hefur hann úrskurðað, að Svínavatnshreppur fari með skipulag á Hveravöllum.

Hæstiréttur hefur nokkrum sinnum fjallað um eignarhald á hálendi landsins og ævinlega hafnað öllum kröfum um eignarhald á því. Svínvetningar eiga því ekki Hveravelli, þótt ef til vill megi segja, að þeir hafi sögulegan rétt á að misþyrma landinu með ofbeit sauðfjár.

Brýnt er, að þjóðin láti nú í sér heyra, því að landbúnaðar- og umhverfisráðherra er að vinna að því að koma eignarhaldi á hálendinu í hendur þeirra sveitarfélga, sem nota afréttina og bera ábyrgð á ofbeitinni. Koma verður í veg fyrir það skipulega og markvissa slys.

Sveitarfélögin, sem liggja að hálendinu, eiga ekki að hafa neinn rétt á hálendinu umfram þau sveitarfélög, sem fjær liggja. Enda er áratuga reynsla fyrir því, að ábyrgðarmenn ofbeitarinnar eru sízt allra færir um að gæta almanna- og umhverfishagsmuna í máli þessu.

Hin séríslenzku vandræði á þessu sviði stafa beinlínis af, að umhverfismál hafa í rauninni verið gerð að undirdeild í landbúnaði, þótt þau séu formlega séð í öðru ráðuneyti. Þess vegna er umhverfismálum þjóðarinnar stýrt af þröngsýnum hagsmunagæzlumanni landbúnaðar.

Þjóðin verður að fara að rísa upp gegn þessum óvinum sínum og koma í veg fyrir afskipti þeirra af hálendinu. Ekki er nóg að hafna eignarhaldi þeirra á hálendinu, heldur einnig rétti þeirra til misnotkunar þess. Tími er kominn til að skrúfa alveg fyrir ofbeit sauðfjár.

Skipulag hálendisins á að vera hjá ríkinu en ekki hinum hættulegu sveitarfélögum, sem hafa farið illa með náttúru landsins. Gott væri að geta notað tilefni Hveravalla til að vekja Alþingi til meðvitundar um að grípa þarf skjótt til nýrra laga um skipulag hálendisins.

Á Hveravöllum hefur Svínavatnshreppur sýnt tennurnar, svo að ekki verður um villzt. Hreppurinn ætlar að bola Ferðafélagi Íslands af svæðinu og koma þar upp okurbúlum ofan í hverasvæðinu. Ef þjóðin grípur ekki strax til varnarvopna, er voðinn vís þar efra.

Á endanum verður það Alþingi eitt, sem getur stöðvað ráðherrann og sveitarfélögin. Þingmenn eru hræddir við kjósendur og taka oft mark á því, sem þeir segja. Þeir, sem áhyggjur hafa af málinu, ættu að tala við þingmenn í sínu kjördæmi og ekki skafa utan af skoðun sinni.

Ef þjóðin notfærir sér Hveravallamálið, getur hún markað þáttaskil í varðveizlu helztu fegurðarauðlinda landsins og tryggt heildarhagsmuni þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV