Verkin bíða biskups

Greinar

Nýr biskup yfir Íslandi tekur við vandasömu hlutverki. Þjóðkirkjan hefur átt við fjölbreytt og vaxandi vandamál að stríða. Innan hennar og milli hennar og umheimsins hefur ríkt misklíð. Það verður meginverk biskups að finna stýrið á þessari hröktu skútu.

Fráfarandi biskup kvartaði réttilega yfir stjórnarandstöðu innan kirkjunnar. Eftir kjör nýs biskups kvaðst hann óska nýjum biskupi þess, að hann þyrfti ekki að fást við slíka andstöðu. Hvatti hann kennimenn til að slíðra sverðin í tilefni biskupsskiptanna.

Vandræði kirkjunnar hafa magnað andstöðu í þjóðfélaginu við núverandi hjónaband ríkis og kirkju. Samkvæmt skoðanakönnunum eru þeir nú komnir í meirihluta, sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Á sama tíma hefur fjölgað úrsögnum manna úr þjóðkirkjunni.

Stundum virðist svo sem ýmsir kennimenn séu kantaðri sem persónur en gengur og gerist. Það sýna útistöður sumra þeirra við safnaðarnefndir og annarra við fólk, sem reynir að skjóta sér undan eignarhaldi þeirra á prestsverkum innan meints lénssvæðis þeirra.

Þetta blandast deilum um, hvort þjóðkirkjan eigi að þróast sem safnaðarkirkja eða sem kennimannakirkja. Meðal presta gætir vaxandi fylgis við síðari kostinn. Það hefur þær afleiðingar, að áhugi safnaðarins minnkar og þjóðkirkjan einangrast í fílabeinsturni kennimanna.

Enn kraumar líka í deilum um kennisetningar og messuhald, þar sem prestar sökuðu hver annan ýmist um að trúa á drauga eða vera kaþólskir. Um þetta sögðu orðvarir menn utan kirkjunnar, að það væru deilur milli hreintrúarmanna og breiðtrúarmanna.

Fráfarandi biskup var að ýmsu leyti seinheppinn og átti þátt í að kalla yfir sig stjórnarandstöðu innan kirkjunnar. Vegna persónulegra hremminga átti hann erfitt með að taka á sumum málum, enda hafa sumir kennimenn verið óstýrilátir og ekki tekið mark á honum.

Ekki bætti úr skák að standa í misheppnuðum málaferlum út og suður, annars vegar í meiðyrðamálum gegn konum, sem höfðu ekki fögur orð um biskup, og hins vegar gegn fimmaurabröndurum nokkurra spaugara, þar sem kirkjan gegndi algeru aukahlutverki.

Stjórn kirkjunnar á kirkjugörðum, einkum í Reykjavík, hefur verið með endemum. Fyrst sætti hún dómi fyrir ólöglega viðskiptahætti og tregðaðist síðan við að haga sér í samræmi við dóminn. Þar á ofan verndar hún okur í skjóli einkaréttar ljósaskreytinga í görðunum.

Ímynd presta hefur verið að breytast. Sumir sjá í þeim blýantsnagara ríkiskerfisins, sem hafi aðallega áhuga á að ræða um kaupið sitt. Aðrir sjá í þeim þrasara, sem séu í sífelldum útistöðum við söfnuð og safnaðarnefndir, aðra presta og einkum þó og sér í lagi við biskup sinn.

Málin eru ýmist stór eða smá. Þess má vænta, að nýr biskup taki á þeim af myndarbrag. Setja þarf niður deilur um hreintrú og breiðtrú. Einnig þarf að finna, hvort kirkjan vill vera safnaðarkirkja eða kennimannakirkja. Hún þarf að taka á innri ágreiningi af slíku tagi.

Stóra málið er svo staða kirkjunnar í þjóðfélaginu. Sá tími er liðinn, að kirkjan geti litið á núverandi stöðu sem sjálfsagða og varanlega. Erfitt er að standa gegn rökum um, að núverandi ástand setji skorður við trúfrelsi og stríði á þann hátt gegn mannréttindum.

Skilnaður og eignaskiptasamningur ríkis og kirkju er stærsta álitamálið af mörgum á borði hins nýja biskups. Hann mun velja þjóðkirkjunni götuna fram eftir vegi.

Jónas Kristjánsson

DV