Verndin hefnir sín

Greinar

Komið hefur í ljós, að þingflokkur sjálfstæðismanna samþykkti í ógáti að veita landbúnaðarráðherra vald til að leggja 200% toll á hvaða innflutta búvöru, sem honum þóknast. Þeir héldu, að þeir væru að samþykkja vald ráðherrans til að tolla kartöflur og kartöfluflögur.

Reikna má með, að framsóknarmenn fyrirgefi sjálfstæðismönnum mistökin og að frumvarpinu verði breytt í meðförum þingsins, svo að það nái aðeins yfir kartöflur og kartöfluflögur. Þar með munu þingmennirnir telja, að lögin séu í hæfilegu samræmi við eðli málsins.

En sagan er ekki öll sögð. Með þrengingu frumvarpsins fellur ógild fullyrðing landbúnaðarráðherra um, að það sé vörn gegn erlendum undirboðum. Slíkar fullyrðingar eru í öllum tilvikum vafasamar. Og aldrei hafa kartöfluflögur verið verndaðar í útlöndum.

Fleiri kvarta um erlenda samkeppni en framleiðendur kartöfluflagna einir. Kunnur iðnrekandi hefur beðið um vernd fyrir innfluttum fatnaði. Hvenær biðja svo súkkulaðigerðir um vernd Og hvenær biðja gosframleiðendur um vernd Hvað ætla þingmenn þá að gera?

Lögunum um verndun á íslenzkum kartöflum og kartöfluflögum verður illa tekið í viðskiptalöndum okkar. Þau verða tekin sem dæmi um, að við séum að falla í freistingu verndarstefnu, sem við höfðum áður hafnað með samstarfi á alþjóðlegum vettvangi tollamála í GATT.

Á sama tíma og þingmenn okkar hyggjast vernda íslenzkar kartöflur og kartöfluflögur eru fulltrúar okkar að reyna að fá Efnahagsbandalag Evrópu ofan af saltfisktolli, sem torveldar viðskipti okkar. 200% tollurinn spillir mjög fyrir málstað okkar þar.

Á sama tíma og þingmenn okkar hyggjast vernda íslenzkar kartöflur og kartöfluflögur er lögð fram á Alþingi tillaga um fríverzlunarsamning við Bandaríkin. 200% tollur þingmanna okkar mun síður en svo auðvelda tilurð slíks fríverzlunarsamnings.

Sennilega er engin þjóð í heiminum eins háð utanríkisviðskiptum og Íslendingar. Við lifum á frjálsum og ótolluðum aðgangi fiskafurða okkar að markaði í Bandaríkjunum og Evrópu. Fáir hagsmunir eru okkur brýnni en að vinna gegn verndarstefnu í viðskiptum.

Barnalegt er að halda, að tollfrelsi fiskafurða sé eitthvert náttúrulögmál. Verndarstefna er að ná sér á strik aftur. Stjórnmálamenn eru farnir að gleyma, að það var tollastríð milli Evrópu og Ameríku, sem hratt kreppunni miklu af stað á fjórða áratugnum.

Efnahagsbandalagið hefur syndgað töluvert á þessu sviði á undanförnum árum. Það hefur æst upp verndarsjónarmið í Bandaríkjunum. Þar liggja nú fyrir þinginu um 400 lagafrumvörp um margvíslega verndun bandarískrar framleiðslu gegn erlendri samkeppni.

Reagan forseti verst fimlega gegn þessu afturhaldi. En demókratar eru veikir fyrir verndarstefnu og kunna að komast til valda eftir nokkur ár. Þá er hætt við lögum, sem munu æsa upp þingmenn annarra ríkja og hraða helgöngunni í átt til tolla- og verndarstefnu.

Á þessum erfiðu tímum felast eindregnir hagsmunir okkar í að mæla hvarvetna fyrir fullkomnu viðskiptafrelsi, hafta- og tollalausu, í samskiptum okkar við önnur ríki. Því til stuðnings eigum við að afnema alla okkar tollvernd, innflutningshöft og innflutningsbann.

Mikilvægur liður þeirrar hagsmunabaráttu er, að þingmenn okkar setji engin lög um 200% toll til verndar tveimur verksmiðjum, sem framleiða kartöfluflögur.

Jónas Kristjánsson

DV