Verndum himin og jörð

Greinar

Ánægjulegt er, að ríkisstjórnin hefur ákveðið, að Ísland verði aðili að tveimur fjölþjóðasamþykktum um takmörkun á notkun efna, sem talin eru spilla ózonlaginu í himinhvolfinu. Úðabrúsar verða merktir frá 1. júní á þessu ári og bannaðir frá 1. júní á næsta ári.

Ekki er vonum fyrr, að Ísland leggur sitt lóð á vogarskál verndunar himinhvolfsins. Um áratugur er síðan Bandaríkin og Norðurlönd tókust á herðar svipaðar skyldur og Ísland hefur nú gert. En hér eftir þurfum við ekki að skammast okkar í þessu umhverfismáli.

Ózonlagið dregur úr útfjólublárri geislun frá sólinni og verndar fólk fyrir húðkrabbameini, ónæmisminnkun og augnsköðum. Það hefur farið minnkandi síðustu tvo áratugina. Heildarminnkunin er um 3% á þessum tíma, en nokkru meiri yfir köldustu svæðum jarðarinnar.

Talið er, að hvert 1% í þessari minnkun ózons auki húðkrabbamein um 5% og illkynjuð sortuæxli í húð um 2%. Um 5000 Bandaríkjamenn deyja úr þessum sjúkdómum á hverju ári. Þetta er aðeins lítið dæmi um, hversu alvarleg er þynning ózonlagsins í háloftunum.

Ózoneyðandi efni eru í úðabrúsum, sem eru mikið notaðir utan um snyrtivörur og í málningu fyrir bíla og hús. Einnig eru þau í kæli- og frystikerfum, froðueinangrun, leysiefnum, slökkvitækjum og brunavarnaefnum. Yfirleitt má fá önnur jafngóð efni í staðinn.

Stefnt er að minnkun heildarnotkunar ózoneyðandi efna um helming á næstu fimm árum. Ríkið telur, að þetta kosti 30­40 milljónir króna. Að fenginni reynslu af kostnaðaráætlunum þess má búast við, að útgjöldin fari í 200 milljónir króna, sem samt er fremur lág tala.

Þrátt fyrir aðgerðir okkar og annarra auðþjóða heims má búast við, að ózonlagið haldi áfram að þynnast um sinn. Í fyrsta lagi eru ózoneyðiefnin lengi að stíga upp í háloftin, svo að mengunin er hægvirk. Í öðru lagi telja þróunarlöndin sig ekki hafa efni á slíkum aðgerðum.

Mikilvægt er, að ríkin, sem vinna gegn ózoneyðingu, taki upp samstarf við að útbreiða fagnaðarerindið til annarra ríkja, svo að samstaðan verði alþjóðlegri. Sérstaklega er brýnt að hvetja til dáða austantjaldsríkin, sem eru annálaðir mengunarvaldar á flestöllum sviðum.

Einnig er mikilvægt að auka aðgerðir gegn mengun af völdum koltvísýrings og hliðstæðra efna, sem geta valdið svokölluðum gróðurhúsáhrifum í himinhvolfinu. Margir hafa áhyggjur af hækkandi hita á jörðinni og kenna um lofttegundum, sem mannkynið framleiðir.

Lítið er enn vitað um, hvort hækkun hita er mannanna verk eða ekki. En vitað er, að fjögur heitustu árin af hinum 150 síðustu hafa einmitt verið á níunda áratug þessarar aldar. Grunur er um, að samband kunni að vera milli þess og lifnaðarhátta á iðnaðaröld.

Hitaaukningunni hafa fylgt miklir þurrkar víða um heim. Ennfremur bræðir hitinn ís, veldur ágangi sjávar á land og spillir búsetu við sjávarsíðuna. Og hitaaukningin getur fælt fisk frá fyrri slóðum. Í viðbrögðum er betra að ganga of langt í hræðslu en í áhyggjuleysi.

Verndun himins og jarðar gegn mannanna verkum, er geta haft skaðleg áhrif á framtíð mannkyns, er ekki auðveld, því að löng og órekjanleg leið er milli einstakra orsaka mengunarinnar og síðari afleiðinga. Þess vegna er alþjóðastarf svo mikilvægt í þessum efnum.

Aðild Íslands að fjölþjóðasamþykktum um varnir gegn minnkun ózons er fyrsta skref okkar í samstarfi um varðveizlu himinhvolfsins og lífsskilyrða á jörðinni.

Jónas Kristjánsson

DV