Verndun fátæktar og fortíðar

Greinar

Svonefnt jafnvægi í byggð landsins kostar skattgreiðendur rúmlega þrjátíu milljarða króna á hverju ári. Það eru um þrjú hundruð þúsund á ári á hvern íbúa landsbyggðarinnar. Þetta segja útreikningar, sem birtir hafa verið á vegum Aflvaka og Reykjavíkurborgar.

Deila má um, hvaða útgjaldaliðir eigi að teljast með í dæmum af þessu tagi. Til dæmis er ekki auðvelt að meta, hversu miklu dýrari á hvern mann vegagerð er í strjálbýli heldur en í þéttbýli. Aðrir liðir eru auðveldari, svo sem landbúnaður, Byggðasjóður og jöfnunargjöld.

Ekki þarf hins vegar að deila um, hvort byggðastefnan nær árangri. Fólk streymir frá dreifbýli til þéttbýlis og mest frá þeim landshlutum, sem mest njóta aðgerða til að koma á jafnvægi í byggð landsins. Fólk flýr unnvörpum frá Vestfjörðum, sem mests stuðnings njóta.

Athyglisvert er raunar, að meðaltekjur manna eru hæstar á Vestfjörðum og atvinna mest. Þar verður að kalla í útlendinga til að manna frystihúsin. Samt nam fólksflóttinn frá Vestfjörðum tæpum tólf prósentum frá miðjum síðasta áratug til miðs þessa áratugar.

Við vitum ekki, hvort byggðaröskun hefði orðið meiri, ef ekki hefði verið varið milljörðum króna á hverju ári til að stöðva hana. Verið getur, að tafið hafi verið fyrir þróuninni. En ekki er þó hægt að segja, að marktækur árangur hafi náðst með þessum fjáraustri.

Einnig verður að hafa í huga, að peningar, sem þjóðfélagið ver í vonlítið varnarstríð af þessu tagi, nýtast því ekki til sóknartækifæra á öðrum sviðum. Millifærslur til verndar fortíðinni draga úr getu þjóðarinnar til að fjármagna atvinnuvegi framtíðarinnar.

Hér í blaðinu hefur oft verið sagt, að raunveruleg byggðastefna eigi að miða að því, að byggð haldist í landinu yfirleitt. Vitlegra sé að verja fjármagni til að draga úr fólksflótta frá landinu heldur en að verja því til að draga úr flutningum fólks milli svæða á landinu.

Landið hefur smám saman verið að tapa fólki til umheimsins. Fleiri flytjast á brott af landinu en þeir, sem í staðinn koma. Á sama tíma og offramboð er á illa borguðum störfum við færiböndin, hrekst hálaunafólkið til útlanda, þar sem tækifærin eru meiri.

Það jafngildir náttúrulögmáli, að störf við landbúnað og færibönd af ýmsu tagi einkenna fátæku löndin í vaxandi mæli, meðan ríku löndin snúa sér að arðbærari verkefnum. Verndun starfa við landbúnað og færibönd felur í sér verndun fortíðar og fátæktar.

Hinn hefðbundni landbúnaður á Íslandi er þrautræddur vandi, sem flestir gera sér grein fyrir. Færri átta sig á þversögninni, sem felst í, að færibandaiðnaður sjávarplássanna sætir taprekstri á sama tíma og hann er ekki samkeppnishæfur í launum og vinnuskilyrðum.

Ísland hefur aldrei staðið og fallið með því, hvort byggð héldist á Hornströndum. Hún bara hvarf. Landið mun hins vegar standa og falla með því, hvort hér tekst að skipta nógu hratt yfir í atvinnutækifæri í greinum, sem eru í fararbroddi nýsköpunar í heiminum.

Í stað þess að verja þrjátíu milljörðum króna á hverju ári til jafnvægis í byggð landsins ætti þjóðfélagið að verja upphæðinni til að kenna færibandafólki frystihúsanna til dæmis á tölvur og styðja það til að flytja sig til svæða, þar sem hálaunagreinar hafa haslað sér völl.

Lífið í heiminum heldur áfram og breytingar gerast með vaxandi hraða. Þær þjóðir missa af lestinni, sem eru uppteknar af verndun fortíðar og fátæktar.

Jónas Kristjánsson

DV