Verndun þjóðareignar

Greinar

Leiðir eru til að koma í veg fyrir, að erlendir aðilar eignist landið og auðlind þess í hafinu í kjölfar aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þær eru aðrar en girðingarnar, sem alþingismenn eru að ræða um að setja upp og hafa ekki skaðleg hliðaráhrif eins og þær.

Girðingar hafa þann galla, að þær mega ekki mismuna innlendum og erlendum aðilum, nema menn vilji eiga á hættu, að þeim verði hnekkt fyrir erlendum dómstólum, sem við höfum meira eða minna játast undir. Smíði slíkra girðinga er lögfræðilega vandmeðfarin.

Jafnvel þótt unnt sé að smíða heldar girðingar á grundvelli kröfu um langvinna búsetu í landinu og á öðrum hliðstæðum forsendum, er hætt við, að þær hindri eðlileg viðskipti innanlands, því að þær verða um leið girðingar gegn hversdagslegum viðskiptum.

Betra er að fara aðrar leiðir, sem byggja á allt öðrum forsendum og varða ekki sérstaklega gráa svæðið um mismunun innlendra og útlendra aðila. Þessar leiðir hafa einnig þann kost að vera mikilvægar af öðrum þjóðfélagslegum ástæðum en þjóðernislegum einum.

Í sjávarútvegi þarf að greina milli sjálfrar auðlindarinnar, sem íslenzka efnahagslögsagan nær yfir, og aðildar að fyrirtækjum, sem nýta þessa auðlind. Skilgreina þarf lögformlega, að þjóðin eigi auðlindina, en hún sé ekki eign fiskiskipa eða fyrirtækja í sjávarútvegi.

Á þessum grunni þarf þjóðin að koma á fót sölu veiðileyfa á frjálsum uppboðsmarkaði, samhliða frjálsri gengisskráningu, svo að útgerðarfélög hafi ráð á að greiða auðlindarskattinn, sem felst í kostnaði við veiðileyfin. Á þennan hátt á þjóðin áfram alla auðlindina.

Margir hagfræðingar hafa einmitt lagt til, að slíkt kerfi verði látið leysa kvótakerfið af hólmi, enda hefur það sjáanlega gengið sér til húðar. Þeir reisa þessar skoðanir á efnahagslegum forsendum, en við getum engu síður bætt við hinum þjóðernislegu forsendum.

Ef þjóðin á skilyrðislaust auðlindir hafsins, má okkur vera sama, hvort erlendir aðilar eigi meira eða minna í skipum eða útgerðarfélögum, vinnslustöðvum eða dreifingarfyrirtækjum, sem borga sig inn í dæmið. Við höldum okkar auðlindartekjum eigi að síður á þurru.

Í landbúnaði þarf að gera þrennt. Í fyrsta lagi þarf að verða lagalega ljóst, að afréttarlönd geti aðeins verið í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Þau séu raunverulegur almenningur í skilningi gamalla laga. Setja þarf lög um, að þessi lönd megi alls ekki ganga kaupum og sölum.

Í öðru lagi þarf að ítreka og skerpa gömul lög um fullan og frjálsan rétt manna til að fara gangandi eða ríðandi um landið, meðal annars með ám og vötnum, án þess að á vegi þeirra verði hliðalausar girðingar, sem landeigendur setja upp til að ýta fólki af löndum sínum.

Í þriðja lagi þarf að leggja niður hvers konar stuðning ríkisins við landbúnað og nota féð að hluta til að kaupa jarðir í því skyni að taka þær úr ábúð. Þar með er í senn dregið úr umfangi landbúnaðar og samfélagið eignast eitthvað fyrir peningana, sem það leggur fram.

Með þessum þremur aðferðum má taka mjög mikið landsvæði af sölumarkaði og tryggja frjálsan aðgang þjóðarinnar að öðrum svæðum, án þess að amast þurfi við, að útlendingar geti eignast skika hér og þar eins og innlendir þéttbýlisbúar hafa gert um langt skeið.

Þótt við tökum þátt í Evrópska efnahagssvæðinu, getum við haldið áfram að eiga auðlind hafsins og frjálsan umgang um landið, ef farið verður að þessum ráðum.

Jónas Kristjánsson

DV