Verri en Sovétríkin.

Greinar

Andstaða manna gegn Sovétríkjunum byggist fyrst og fremst á heimsvaldastefnu þeirra. Þau eru hættuleg, af því að þau vilja flytja vandamál sín til okkar. Útþensla er sérgrein Sovétríkjanna og gerir þau ólík öllum öðrum ríkjum.

Stjórnarfar í Sovétríkjunum er ekki verra en gengur og gerist í heiminum. Ríkisstjórnin setur menn á geðveikrahæli eða í fangabúðir, en drepur þá ekki beinlínis, svo sem siður er víða í þriðja heiminum, einkum í Suður-Ameríku.

Stjórnarfar er miklu verra í ríkjum skjólstæðinga Bandaríkjanna og á eftir að verða verra. Þar vestra eru komnir til valda menn, sem eru þrúgaðir af hægri sinnaðri karlmennsku, “machismo”, þeir Reagan og Haig.

Valdataka þeirra hefur leitt miðaldamyrkur yfir Rómönsku Ameríku. Afturhaldsstjórnir eru því fegnastar að vera lausar við mannréttindastefnu Carters og fagna eindregið því, sem kallað er raunsæisstefna Reagans.

Hér í leiðurum hefur áður verið fjallað um stjórnarfar í ríkjum á borð við Mexíkó, Chile og El Salvador. Alls staðar er sagan hin sama, vel skipulögð hryðjuverk stjórnvalda gegn fátæku og bjargarlausu fólki.

Í þetta sinn skal tekið dæmi um “machismo” í sjaldnefndu ríki, Guatemala. Um karlmennsku stjórnvalda þar mun senn birtast skýrsla Amnesty lnternational. Þar hefur mjög sigið á ógæfuhliðina, síðan CIA tók við völdum árið 1954.

Ríkisstjórnin í Guatemala hefur drepið um 30.000 manns. Verkin eru skipulögð í forsetahöllinni sjálfri, undir stjórn Hector Montalban, yfirmanns hers og leyniþjónustu, hægri handar Romeo Lucas Garcia forseta.

Amnesty hefur skráð langa og dapurlega röð staðreynda um geðsjúkan kvalalosta stjórnvalda í Guatemala, sem starfa í skjóli leyniþjónustu Bandaríkjanna. Skráning þessi er svo nákvæm, að henni verður ekki mótmælt.

Töfraorð stjórnar Guatemala gagnvart Bandaríkjunum er “kommúnismi”. Hún segist vera að vernda þjóðina fyrir vondum kommúnistum. Það fellur í kram leyniþjónustu Bandaríkjanna, sem telur ekkert böl verra en kommúnisma.

Suðuramerísk illmenni hafa löngum leikið þann leik að þykjast vera að uppræta kommúnisma. Þar með fá þau sjálfvirkan stuðning CIA og bandarískra stjórnvalda til að ofsækja og mergsjúga bláfátækan almenning heima fyrir.

Á valdaskeiði Carters var reynt að vinda ofan af þessu spillta samstarfi, enda var hlegið að honum viðast hvar, nema hér í Dagblaðinu. En staðreyndin var þó sú, að Carter færði Bandaríkjunum siðræna reisn.

Eitt fyrsta verk Reagans var að heimsækja einn glæpamanninn, forseta Mexíkó, og gefa honum riffil, tákn um sameiginlega karlmennsku eða “machismo” þeirra tveggja. Í einu vetfangi eyðilagði hann uppbyggingu Carters.

Bandaríkin eru aftur komin í þá stöðu að vera stærsta böl Rómönsku Ameríku. Þau gegna þar svipuðu hlutverki og Sovétríkin gegna gagnvart heiminum í heild. Þar eru þau tákn miskunnarleysis og kúgunar.

Í Suður-Ameríku halda Bandaríkin uppi ríkisstjórnum, sem í sjálfu sér eru margfalt verri en stjórn Sovétríkjanna. Eini kostur þeirra er sá, að þær stefna ekki að heimsyfirráðum eins og stjórn Sovétríkjanna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið