Bandarískir fjölmiðlar ganga langt í hlutleysi, vilja birta tvær skoðanir á hverju máli. Þótt veruleikinn sé bara einn. Á sumum málum eru einfaldlega ekki tvær hliðar. Jörðin er kúlulaga, ekki flöt. Því eru flatjarðarsinnar ekki marktækir. Ekki eru tvær jafngildar hliðar á afstöðu til þróunar lífs á jörðinni, til umhverfismála, til stríðsins gegn Írak. Í bókinni Right is Wrong ræðir Arianna Huffington vandann. Afskræmt hlutleysi fjölmiðla leiðir til, að ímyndun fær sama vægi og veruleiki í hugum fólks. Nærri helmingur Bandaríkjamanna ímyndar sér, að Saddam Hussein hafi sprengt tvíburaturnana.