Vestfirzki vítahringurinn

Greinar

Kvótakerfi og sjófrysting hafa leyst átthagafjötra sjávarútvegsins. Vinnsla er að hluta komin á haf út og eignarhald á kvóta flæðir lítt hindrað milli landshluta. Þannig geta sjávarpláss og jafnvel landshlutar sprungið út og einkum þó hrunið á tiltölulega skömmum tíma.

Mest kreppir núna að Vestfjörðum, þótt þar hafi til skamms tíma verið mestar tekjur og mest atvinna á landinu. Ofuráherzla Vestfirðinga á þorsk kom þeim í koll, þegar þorskkvóti minnkaði. Hún stuðlaði að óvenjulega miklum hallarekstri fyrirtækja og bæjarfélaga.

Fjölmenn undirstöðufyrirtæki í fiskvinnslu fámennra byggða verða gjaldþrota. Sveitarfélög, sem áður voru búin að skuldsetja sig glannalega, reynast ekki í stakk búin til að hlaupa undir bagga. Vítahringur aðstæðna og mistaka dregur út athafnaþreki og bjartsýni fólks.

Brestur heyrðist um Vestfirði alla, þegar útgerðarfélagið Hrönn á Ísafirði var selt Samherja á Akureyri. Þá sá fólk skyndilega, að líf þess var spilaborg. Þá sá fólk skýrar en áður, að kvóti gat horfið með einu pennastriki, án þess að fórnardýrin kæmu við vörnum.

Vestfirðingar eru farnir að horfa á eftir sægreifum sínum suður til Reykjavíkur, þar sem þeir sitja við að telja peninga, er þeir hafa fengið fyrir að selja úr héraði kvóta, sem forustumenn stjórnmálanna hafa afhent þeim á silfurfati gegn ráðum og vilja þjóðarinnar.

Reiði fólks beinist þó ekki að stjórnmálamönnunum, sem gáfu sægreifum kvótann, heldur að rekstri, sem enn er í héraði. Verkfall hefur staðið þar vikum saman og engin lausn er í sjónmáli. Deilan snýst að formi til um kaup, en að innihaldi um breyttar aðstæður í héraði.

Komið hefur fram í fréttum, að fjölskyldur eru farnar að flýja Vestfirði vegna vinnudeilunnar. Þær sækja til staða, þar sem spenna er minni og meiri líkur á atvinnu og vinnufriði. Einnig er ljóst, að brottfararsnið er komið á ýmsa eigendur vestfirzkra fyrirtækja og kvóta.

Verkfallið magnar þannig ástandið, sem var ein helzta orsök verkfallsins. Deilan er áþreifanlegasta dæmið um, að tilvistarkreppa Vestfjarða er önnur og meiri en annarra landshluta. Hraðinn fer vaxandi á vítahring hennar. Tilvistarkreppan er farin að nærast á sjálfri sér.

Ósennilegt er, að verðmunurinn á því, sem semja mátti um án verkfalls, og því, sem um semst að loknu margra vikna verkfalli, nægi til að brúa tekjumissi fólks af verkfallinu, þótt litið sé mörg ár fram í tímann. Að því leyti er verkfallið þegar orðið að martröð.

Verkalýðsrekendur í verkfallsplássum Vestfjarða hafa metið heildarstöðuna rangt, þótt þeir hafi metið rétt baráttuvilja félagsmanna. Þeir hafa fyrst og fremst vanmetið, hversu mikið þau atriði, sem reiðin beinist gegn, hafa laskað samningastöðu seljenda vestfirzks vinnuafls.

Verkfallið er búið að skerða tekjur þátttakenda og mun halda áfram að gera það. Um leið er það farið að hvetja fólk og fyrirtæki til brottflutnings. Ekki sízt hefur það hvatt vestfirzka sægreifa til að koma kvóta sínum í verð, áður en þjóðin hrifsar hann til sín aftur.

Ekkert atriði er eins til þess fallið að kljúfa þjóðina í andstæðar fylkingar en þjónusta stjórnmálamanna, einkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, við hagsmuni kvótaeigenda. Þessi þjónusta var ítrekuð á þingi í vor með lögum um heimild til veðsetningar kvóta.

Framsal auðlinda hafsins í hendur sægreifa, flutningur fiskvinnslu á haf úti, sveiflur í þorskafla og staðbundin mistök leggjast á eitt í vestfirzka vítahringnum.

Jónas Kristjánsson

DV