Vestfjarða-hremmingar

Greinar

Atvinna er meiri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum. Allt til þessa dags hefur atvinnuleysi á Vestfjörðum verið langt undir landsmeðaltali. Hvergi annars staðar hefur fyrirtækjum verið haldið gangandi í jafn ríkum mæli með erlendu vinnuafli og einmitt á Vestfjörðum.

Þótt Vestfirðingum gangi betur en öðrum landsmönnum, eru blikur á lofti hjá þeim eins og öðrum. Landsfræg fyrirtæki eru sum hver komin á sóttarsæng og önnur hafa lagt upp laupana. Vestfirðingar eiga því á hættu svipað atvinnuleysi og þegar hefur steðjað að öðrum.

Helzti grátkarl Vestfjarða hefur í tilefni þessa skorið upp herör gegn meintum óvinum Vestfirðinga. Í þeim meinta fjandaflokki fara fremst ríkisstjórnin, sem Matthías Bjarnason telur beinlínis ofsækja Vestfirði, og Landsbankinn, sem hann telur mismuna Vestfjörðum.

Landsbankastjórar eru orðnir svo beygðir af gagnrýni á lélegan rekstur og vafasama lánastefnu, sem krefst milljarða afskrifta á hverju ári, að þeir treystu sér ekki til að bera hönd fyrir höfuð sér um helgina og létu sér nægja að þegja um órökstuddar ásakanir Matthíasar.

Ríkisstjórnin er orðin svo beygð af gagnrýni á lélegan ríkisrekstur og vafasama skuldastefnu, sem óðfluga gleypir útflutningstekjur þjóðarinnar, að hún treysti sér ekki til að bera hönd fyrir höfuð sér um helgina og kvaðst mundu taka fjárkröfur Matthíasar til athugunar.

Ein stofnun í kerfinu er svo aum, að þar ræður Matthías öllu því, sem hann vill ráða. Undir forsæti hans hefur hún slegið hvert Íslandsmetið af öðru í botnlausu lána- og styrkjarugli. Þetta er Byggðastofnun, sem nú hefur gerzt sérstök byggðastofnun Vestfjarða.

Samhliða skætingi sínum hefur Matthías látið Byggðastofnun senda 300 milljóna króna kröfu til ríkisstjórnarinnar til að bæta hag Vestfjarða umfram aðra landshluta, jafnvel þótt aðsteðjandi kreppa hafi látið hægar að sér kveða á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum.

Upphlaup Byggðastofnunar og formanns hennar er enn eitt dæmið um, að heilbrigð rekstrarsjónarmið eru þar ekki í hávegum höfð, þótt töluvert sé þar af svokölluðum sérfræðingum, sem eiga að vita betur. Byggðastofnun hefur ekkert lært af langvinnri peningabrennslu sinni.

Þessi uppákoma hlýtur að styrkja kröfur um, að hin annálaða vandræðastofnun verði lögð niður, áður en hún veldur þjóðinni enn meira tjóni en þegar er orðið. Verðmætabrennsla hennar er einn helzti örlagavaldurinn að göngu þjóðarinnar inn í vaxandi kreppu og vonleysi.

Byggðastofnun hefur meira að segja stuðlað að eyðingu byggða með því að setja upp eða samþykkja óraunhæf fjármáladæmi, sem hafa reynzt ofviða öllum aðstandendum, henni sjálfri, athafnamönnum í héraði, sveitarstjórnum og almennum hluthöfum í fjármáladæmunum.

Innspýtingarstefna Byggðastofnunar hefur breytt litlum vandræðum í stórfelld vandræði, af því að hún hefur margfaldað fjármunina, sem í húfi hafa verið. Hún hefur ekki fylgt reglunni um, að gjaldþrot verða ekki stöðvuð með því að grýta peningum í þau í glóruleysi.

Ógæfa hefur í allt of mörgum tilvikum fylgt faðmlögum Byggðastofnunar. Þess vegna hafa nokkrir ráðamenn á Vestfjörðum þegar tekið dauflega undir fjárkröfur hennar og formanns hennar. Þeir vita, að fjáraustur er hættuleg tilraun til lausnar á vandamálum fjórðungsins.

Það er ekki nóg að yppta öxlum út af órökstuddu upphlaupi Matthísar og Byggðastofnunar, heldur þarf að gera ráðstafanir til losa grátkórinn af herðum okkar.

Jónas Kristjánsson

DV