Þetta segir hestaferðamaðurinn og listmálarinn Baltasar Samper um hlutina, sem komu upp úr vösunum á ferðavesti hans:
GPS er eitt nauðsynlegasta öryggistæki í hestaferðum í óbyggðum. Nauðsynlegt að vera búinn að æfa sig á tækið áður en til kastanna kemur, því að tækin eru ekki mjög notendavæn. Menn verða líka að æfa sig á sömu tegund og notuð verða í ferðinni, því að tæki mismunandi framleiðenda virka á misjafnan hátt. Þegar vandamál koma upp, þurfa menn að geta unnið hratt á tækið, í stað þess að fálma sig áfram. Menn þurfa til dæmis að geta gefið upp staðarákvörðun í síma fyrirvaralítið í neyðartilvikum.
Tækið þarf líka að vera vatnsþétt, því að vasar yfirhafna gegnblotna stundum. Mikilvægt er líka að muna að skipta um rafhlöður, svo að menn sitji ekki uppi með ónothæft tæki á örlagastundu. Einnig þurfa menn að muna að staðfesta á leiðinni, hvort tækið sýni rétta punkta með því að slá inn nýja punkta til samanburðar. Bezt er að hafa tæki, sem hefur að geyma íslenzkt landakort, sýnir rétta segulmisvísun á áttavitanum og sýnir einnig í hvaða átt menn þurfa að fara til að komast á fyrirhugaðan áfangastað. Menn þurfa að hafa fyrirfram æft sig á að ferðast eftir áttavitanum í tækinu.
Öll hnit hverrar dagleiðar tek ég upp af nákvæmu tölvukorti, 1 á móti 50.000 eða 1 á móti 100.000, áður en lagt er af stað í ferðina. Þessi hnit eru ekki mörg, en þau sýna brottfararstað og endastað, svo og mikilvægar staðsetningar á leiðinni, svo sem vöð, hlið, krossgötur og mikilvægar beygjur. Fyrir hverja dagleið prenta ég út tölvukort með hnitum, sem sýnir leiðina. Allir ferðafélagarnir hafa slíka útprentun. Fyrir utan þessa útprentun er gott fyrir hvern ferðafélaga að hafa kort, sem sýnir stærri hluta landsins til að sjá afstöðuna til kunnugra kennileita, sem eru utan svæðis útprentaða kortsins.
Ég er líka með kortahjól, sem mælir krókóttar vegalengdir á korti. Við niðurstöðutölurnar þarf að bæta 10%, af því að raunveruleg leið hestanna er alltaf aðeins lengri en leið hjólsins á kortinu. Einnig er ég með glæru, sem skiptir leitarkortareitum björgunarsveita í 24 reiti. Með því að bregða glærunni á kortið, get ég gefið björgunarsveit upp með nokkurri nákvæmni, númer þess reits landsins, sem ég er staddur á, ef hópurinn þyrfti á aðstoð að halda.
Ég er líka með minnisbók með vatnsþéttum blaðsíðum, þar sem hægt er skrifa nótur í rigningu. Svo er ég með Almannak háskólans, handhæga bók, þar sem hægt er að sjá flóðatöflur, upplýsingar um sólarupprás og sólsetur, misvísun á kompás og margvíslegar aðrar gagnlegar upplýsingar, svo sem um stjörnuhimininn. Það er meira að segja hægt að sjá, hvaða vikudagur, ef maður er svo afslappaður, að maður hafi gleymt því.
Lokuð gleraugu til notkunar í sandstormi geta komið að góðu gagni, til dæmis skíðagleraugu eða fjallageraugu, en ekki sundgleraugu, því að þau eru óþægileg. Allir ættu að vera með lítil vasaljós til að sveifla kringum sig til að vekja athygli á sér í myrkri og þoku, þegar ferðazt er síðsumars. Það er miklu þægilegra að nota ljós heldur en að vera að æpa og öskra.
Við erum með NMT síma í bílnum og nú orðið er ég með Iridium síma í vasanum. Þeir nota gervihnattasamband, sem er ekki eins dýrt og áður var. Hægt að taka sambandið á leigu fyrir 48 dollara í opnunar- og lokunargjald og 1.000 kr leigu á dag, fyrir utan notkunina sjálfa, sem kostar 1-1,5 dollara á mínútu. Þessir símar ná alls staðar sambandi og eru miklu léttari en NMT símar. Þeir fást til leigu í Radiomiðun á Grandagarði.
7-8 kg í vösunum
Undir þunnri goritex úlpu er Baltasar í vel ræstu skotveiðivesti með ótal vösum, þar sem hver vasi gegnir sínu sérstaka hlutverki. Alls er hann með 7-8 kíló af gagnlegum hlutum í vösunum. Þar að auki er hann svo með hníf og járningatæki í beltinu.
Efst til hægri er brjóstvasi fyrir GSM-síma. Til hliðar við hann er vasi fyrir munnhörpu. Fyrir neðan símavasann eru tveir litlir vasar, annar fyrir stækkunargler til kortalestrar og hinn fyrir áttavita með segulmisvísun. Efst til vinstri er lítill brjóstvasi fyrir tvö kortahjól til að áætla fjarlægðir á korti. Þar fyrir neðan er stærri vasi fyrir GPS-staðsetningartæki.
Að neðan til hægri er stór vasi fyrir hart geraugnahulstur með sólgleraugum. Þar er annar stór vasi fyrir Iridium-gervihnattasíma, sem nær sambandi hvar sem er á fjöllum. Þar er líka lítill vasi fyrir flugnanet. Vinstra megin að neðan eru nokkrir vasar, einn fyrir kíki, annar fyrir vasaljós, þriðji fyrir hófkrækju og sá fjórði fyrir ýmis gögn, svo sem minnisbók með vatnsþéttum blöðum, útskrift af korti af svæðinu og GPS-punktum leiðarinnar, svo og almannak háskólans.
Innan á vestinu er hægra megin að ofan brjóstvasi fyrr herforingjaráðskort í mælikvarðanum 1/100.000 eða 1/50.000. Vinstra megin er að ofan er vasi fyrir seðlaveski. Aftan á vestinu er stór og víður vasi með heildarkorti af Íslandi í mælikvarðanum 1/250.000.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 3.tbl. 2003