Vestræn ábyrgð á innrás

Greinar

Ísland hefði átt að viðurkenna Litháen sem sjálfstætt og fullvalda ríki í síðustu viku eins og hvatt var til í leiðara þessa blaðs 15. marz. Það hefði verið örlítið lóð á vogarskálina gegn því, að einræðisherrann Gorbatsjov legði til atlögu gegn Litháen og vestrænu almannaáliti.

Ísland hefði ennfremur átt að hvetja til þess á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda, að þau viðurkenndu öll sjálfstæði og fullveldi Litháens, svo sem hvatt var til í DV í ofangreindum leiðara. Eitt sér er Ísland ekki þungt lóð, en Norðurlöndin öll eru sameiginlega nokkuð þung.

En möppudýr Norðurlanda eru ófær um að líta upp úr marklausu pappírsflóði svokallaðrar norrænnar samvinnu. Tregða þessara ríkja við að styðja Litháen, þegar á reyndi, hefur hert Gorbatsjov upp í að láta Rauða herinn taka Litháen herskildi ennþá einu sinni.

Ekkert vestrænt ríki viðurkenndi Litháen sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Með því að neita ríkinu um viðurkenningu, voru Vesturlönd að segja, að þau álitu í raun, að Litháen væri hluti af Sovétríkjunum og yrði að semja sig út úr þeim, svo sem Gorbatsjov hafði lagt til.

Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að Vesturlönd sviku Litháen og sannfærðu Gorbatsjov um, að almenningsálitið á Vesturlöndum væri ekki markverður þröskuldur í vegi þess, að hann fengi vilja sínum framgengt. Vesturlönd bera ábyrgð á innrásinni.

Svo geta heybrækur Vesturlanda spurt sig, hvað hefði kostað að gera það, sem skyldan bauð. Hefði Gorbatsjov getað refsað Íslandi á einhvern hátt fyrir að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Litháens? Hefði hann getað refsað Norðurlöndum? Eða kannski refsað Bandaríkjunum?

Staðreyndin er, að Gorbatsjov getur ekki refsað neinum. Hann er gjaldþrota einræðisherra, sem situr á toppi gjaldþrota kommúnistaflokks við að stjórna gjaldþrota heimsveldisflaki. Hann á ekki fyrir eldsneyti á skriðdrekana, sem hann hefur sent inn í Vilnius.

Merkilegt er, hve mikla áherzlu stjórnmálaleiðtogar Vesturlanda hafa lagt á að styðja við bakið á Gorbatsjov, eins og hann sé eina ljósið í sovétmyrkrinu. Það var þó erkióvinur hans, Ligatsjev, sem sagði, að ekki kæmi til greina að beita skriðdrekum í Litháen.

Gorbatsjov er í raun enginn lykilmaður framfara í Sovétríkjunum. Flokksforustan hefur ráðið hann til að bjarga því sem bjargað verður úr gjaldþrotinu. Helztu menn kommúnistaflokksins vita, að kerfi þeirra er hrunið, og þeir eru að reyna að bjarga eigin skinni.

Engin ástæða er fyrir Bandaríkjastjórn að bæta Gorbatsjov við fjölmenna hirð ógæfulegra skjólstæðinga sinna úti í heimi. Nóg ætti að vera fyrir Bush Bandaríkjaforseta að vera með ráðamenn Kína, Pakistan, Írak og annan hvern bófa í Suður-Ameríku á bakinu.

Bandaríkin studdu Somoza í Nicaragua á sínum tíma, af því að hann var “okkar tíkarsonur” eins og það var orðað. Slíkir synir eru orðnir nokkuð margir á síðustu áratugum, svo að segja má, að mátulegt sé, að einræðisherrann Gorbatsjov bætist í röðina, aftan við Deng.

Okkur á Íslandi nægir þó að líta í eigin barm. Okkar sívirða er að leyfa möppudýrum okkar að fara á kostum í þeirri hundalógík, að Ísland þurfi ekki að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Litháens árið 1990, af því að Danmörk hafi ekki viðurkennt innlimunina árið 1940.

Aldrei er þó of seint að gera það, sem skyldan býður og möppudýrin banna. Þess vegna eigum við strax í dag að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Litháens.

Jónas Kristjánsson

DV