Vestræn ábyrgð á morðæði.

Greinar

Átakanlegasti álitshnekkir hins vestræna heims stafar af stuðningi stjórnar Bandaríkjanna við hægri sinnuð öfgaöfl í Rómönsku Ameríku, einkum Mið-Ameríku. Hörmungarnar í El Salvador eru skýrasta dæmið um þetta.

Þar í landi hafa dauðasveitir hersins myrt upp undir 40.000 óbreytta borgara á síðustu fjórum árum. Sum morðin hafa verið tilviljanakennd, en önnur beinzt að hverjum þeim, sem hefur viljað styðja lítilmagnann.

Í bandaríska læknaritinu New England Journal of Medicine hefur rækilega verið skýrt frá, hvernig dauðasveitirnar hafa reynt að útrýma læknum, hjúkrunarkonum og sjúkraliðum, sem hafa stundað fátæka fólkið í landinu.

Að baki dauðasveitanna er yfirstétt hinna gömlu og ofsaríku landeigenda, sem eru að reyna að hindra, að jarðnæði verði að hluta skipt meðal leiguliða. Þeir eru að reyna að stöðva þróun, sem hófst í valdatíð kristilegra demókrata.

Vinstri menn þorðu ekki að taka þátt í síðustu kosningum í El Salvador af ótta við æði morðsveitanna. Þá misstu kristilegir meirihluta sinn í hendur róttækra hægri flokka á borð við þann, sem vitfirringurinn d’Aubuisson stýrir.

Þá var búið að skipta 20% jarðnæðis landsins milli fátækra bænda. Eftir kosningar hafa verið sett lög, sem stöðva þessa þróun, þannig að ríkir landeigendur haldi eftir að minnsta kosti þremur fjórðu alls lands.

Bandaríkjastjórn veit vel, að fyrri umbætur í landbúnaði voru forsenda þess, að unnt væri að rækta í landinu miðjustefnu, sem væri laus við öfgarnar til hægri og vinstri. Þetta hefur mistekizt síðan Reagan varð forseti.

Hernaður stjórnar El Salvador gegn skæruliðum, kostaður af Bandaríkjastjórn, gengur verr með hverjum mánuði. Enda er blóðferill hersins slíkur, að hann er hataður af allri alþýðu manna. Reglan er, að herinn þorir ekki í skæruliðana og myrðir þorpsbúa í staðinn.

Upp á síðkastið er Bandaríkjastjórn farin að átta sig á, að ekki er einhlít sú stefna Reagans forseta og Kirkpatricks sendiherra að styðja alla þá, sem segjast vera á móti kommúnistum, hversu ógeðslegir sem þessir skjólstæðingar eru.

Sendimenn Bandaríkjastjórnar, þar á meðal Bush varaforseti, hafa flutt stjórnvöldum í El Salvador lista yfir verstu morðvargana í hernum. Farið hefur verið fram á, að þeir verði settir af og gerðir útlægir. En án árangurs.

Hinn síðbúni partaskilningur Bandaríkjastjórnar hefur minni áhrif en ella fyrir þá sök, að margvísleg öfgaöfl í Bandaríkjunum styðja hinar blóðugu ofsóknir yfirstéttarinnar í El Salvador gegn langsoltinni alþýðu landsins.

Bandarísku öfgaöflin styðja fyrirbæri á borð við d’Aubuisson með peningum, ráðum og dáð. Í þeim hópi eru Council on lnter-American Security, American Security Council og National Strategic lnformation Center.

Öfgaöflin í Bandaríkjunum og El Salvador eru sammála um, að útrýma þurfi kommúnistum. Þar með taldir eru kristilegir demókratar, sem hingað til hafa verið álitnir fremur hægri sinnaðir. Þeir hafa kerfisbundið verið myrtir.

Með sama áframhaldi hverfur hin lýðræðislega miðja í El Salvador og Bandaríkjastjórn fær þá niðurstöðu. sem hún óttast. Róttækir vinstri menn eflast og steypa í byltingu morðsveitum róttækra hægrisinna.

Jónas Kristjánsson.

DV