Vestræn gildi sækja fram

Greinar

Vestrænt gildismat er á nýjan leik í sókn í heiminum eftir nokkurt hlé gagnsóknar af hálfu leiðtoga í fjarlægum Austurlöndum, sem óttast, að vestræn gildi grafi undan alræðisvaldi þeirra. Vestræn gildi eru enn á ný sett fram sem almenn mannkynsgildi.

Mannréttindi eru einkunnarorð vestræna gildismatsins. Undir merkjum mannréttinda er sótt að harðstjórum, sem áður gátu farið sínu fram í skjóli þess, að vestræn mannréttindastefna ætti ekki heima utan Vesturlanda og fæli í sér afskipti af innanríkismálum.

Um þessar mundir er hin vestræna stefna mannréttinda að vinna land á Austur-Tímor. Hersveitir Indónesíu hafa flúið af vettvangi eftir óheyrileg grimmdarverk, en skilið eftir hluta af dauðasveitum sínum til að reyna að grafa undan innrásarliði Ástralíumanna.

Við valdaskiptin á Austur-Tímor hefur komið í ljós, að dauðasveitirnar voru að mestu leyti skipaðar hermönnum Indónesíu, sem skiptu um hlutverk í frístundum. Enn fremur hefur með símahlerunum komið í ljós, að yfirmenn hersins stjórnuðu dauðasveitunum.

Það kemur ekki á óvart á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, að valdhafar austrænna ríkja skuli slá skjaldborg um herinn í Indónesíu til að koma í veg fyrir, að efnt verði til stríðsglæpadómstóls að vestrænum hætti til að fjalla um voðaverkin á Austur-Tímor.

Ekki kemur heldur á óvart, að valdhafar þessara ríkja kvarta um, að Ástralíumenn gangi alltof hart fram við að afvopna dauðsveitir Indónesíuhers á Austur-Tímor. Þeir segja þetta vera nýtízkulegt dæmi um aldagamlan yfirgang hvíta mannsins í þriðja heiminum.

Ráðamenn Austurlanda eru að verja rétt sinn og sálufélaga sinna til að ofsækja heilar minnihlutaþjóðir ofan á ofsóknir gegn trúflokkum, stjórnarandstöðu, fjölmiðlum og yfirleitt öllum, sem þeir telja standa í vegi sínum. Þeir eru að verja brot gegn mannkyninu.

Austrænir ráðamenn hafa gert vestrænu gildismati greiða með því að stilla andstæðunum upp sem mun á austri og vestri. Þegar siðferðisforsendur austræna gildismatsins bresta, verður fall þess mikið. Vestrænu gildin eiga þá greiðari leið að heimsyfirráðum.

Ráðamenn á Vesturlöndum eru í auknum mæli að átta sig á, að valddreifð réttarríki að vestrænum hætti í þriðja heiminum eru líklegri en önnur til að verða efnahagslega sjálfbær og friðsöm. Þróunaraðstoð beinist í auknum mæli til ríkja, sem þróast í vestræna átt.

Ráðamenn á Vesturlöndum eru í auknum mæli að átta sig á, að bezta leiðin til að stækka svæði friðar og kaupsýslu í heiminum og fækka heimspólitískum vandamálum er að styðja ríki til að taka ekki aðeins upp vestræn form, heldur einnig vestræn gildi.

Ráðamenn á Vesturlöndum eru í auknum mæli að átta sig á, að taprekstur er og verður á vestrænum stuðningi við harðstjóra þriðja heimsins. Komið hefur í ljós, að borgaraleg réttindi að vestrænum hætti eru jarðvegur kaupsýslu og friðsamlegrar sambúðar ríkja.

Eftir japl og jaml og fuður ákváðu Vesturlönd að sýna tennurnar í Kosovo. Nú hafa þau gert hið sama á Austur-Tímor, einnig með nokkurri tregðu. Í báðum tilvikum vanmátu harðstjórarnir getu Vesturlanda til að láta hunzaðar umvandanir leiða til hernaðaraðgerða.

Hrollur fer nú um harðstjóra þriðja heimsins, þegar þeir hópa fulltrúa sína saman á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að tefja framgang mannréttinda.

Jónas Kristjánsson

DV