Helztu fjöldamorðingjar Rómönsku Ameríku eiga eitt sameiginlegt. Þeir lærðu í sama skóla, þar sem meðal annars voru kenndar pyndingar og aftökur. Afbrotaskrá nemenda skólans er margfalt lengri en nemenda Osama bin Ladens og morðin miklu meira en tífalt fleiri.
Nokkrir illræmdir hershöfðingjar og valdaræningjar gengu í þennan sama skóla. Þar voru Roberto Viola og Leopoldo Galtieri frá Argentínu, einnig Manuel Noriega og Omar Torrijos frá Panama, svo og Juan Velasco Alvarada frá Perú og Guillermo Rodriguez frá Ekvador.
Fjórir af hverjum tíu ráðherrum í morðóðum ríkisstjórnum Lucas Garcia í Perú, Rios Montt og Mejia Victores í Gvatemala gengu í þennan sama skóla, sem skipti um nafn í byrjun þessa árs, þegar nokkrir bandarískir þingmenn höfðu gert harða hríð að honum.
Meðal annarra nemenda skólans eru Byron Lima Estrada, sem stjórnaði morðinu á Juan Gerardi biskupi í Gvatemala árið 1998. Einna illræmdastur allra nemenda skólans er þó Roberto d’Aubuisson, sem stjórnaði dauðasveitum ríkisstjórnarinnar í El Salvador.
Nemendur skólans hafa stjórnað og stjórna enn dauðasveitum um alla Rómönsku Ameríku, allt suður til stjórnar Pinochets í Chile, þar sem þeir skipuðu leyniþjónustu hersins. 19 af 26 morðingjum kaþólsku prestanna í El Salvador voru nemendur skólans.
Tveir nemendur skólans myrtu friðarumba ríkisstjórnarinnar í Kólumbíu í fyrra. Nemandi skólans stjórnaði hinni illræmdu aftökusveit Grupos Colina, sem starfaði á vegum Albertos Fujimori, sem síðar flúði land, einnig sá sem stjórnaði morðunum í Ocosingo í Mexíkó.
Skólinn, sem ofantaldir brjálæðingar sóttu, hét Skóli Ameríku fram í byrjun þessa árs, er nafninu var breytt í Vesturheimsstofnun öryggissamvinnu. Skólinn er enn á sama stað í Fort Benning í Georgíu í Bandaríkjunum með sömu kennurum með sömu kennslubækur.
Skólinn hefur í 55 ár verið kostaður af bandaríska ríkinu til að grafa undan löglegum ríkisstjórnum í Rómönsku Ameríku og koma þar til valda harðstjórum, sem væru líklegir til að þjóna bandarískum hagsmunum. Hann hefur haft 60 þúsund nemendur á þessum árum.
Nemendur skólans hafa gengið af göflunum um alla Rómönsku Ameríku, myrt tugþúsundir manna, meira en tífalt fleiri en féllu í árásinni á World Trade Center og Pentagon. Þeir bera mesta ábyrgð á, að Rómanska Ameríka hefur efnahagslega staðnað á þessum áratugum.
Skólinn í Fort Benning er tífalt eða tuttugufalt eða þrítugfalt meiri hryðjuverkastofnun en samtök Osama bin Ladens. Ríkið, sem kostar skólann, er tífalt eða tuttugufalt eða þrítugfalt meira hryðjuverkaríki en það ríki talibana í Afganistan, sem var skjól Osama bin Ladens.
Baráttan gegn Osama bin Laden og talibönum er út af fyrir sig réttlát, en hún er ekki barátta gegn hryðjuverkum í heiminum. Þau munu halda áfram eins og ekkert hafi ískorizt, þótt sigur vinnist í Afganistan. Skólinn í Fort Benning mun sjá til þess, að svo verði.
Dæmið um Vesturheimsstofnun öryggissamvinnu sýnir, að fréttaneytendur ættu að fara varlega í trúgirni, þegar valdamenn Bandaríkjanna alhæfa um stríðið í Afganistan sem upphaf að baráttu gegn hryðjuverkum í heiminum. Þar er um einfalt hefndarstríð að ræða.
Ef Bandaríkin vilja uppræta hryðjuverk í heiminum eru hægust heimatökin að byrja á eigin skóla í Fort Benning í Georgíu, heimsbyggðinni til farsældar.
Jónas Kristjánsson
DV