Vestræn linkind og hræsni.

Greinar

Herlögin í Póllandi hafa ekki leitt til neins stjórnmálaágreinings í Austur-Evrópu. Þvert á móti eru það Vesturlönd, sem hafa sundrazt. Hérna megin járntjalds er hver höndin uppi á móti annarri út af við- brögðum við herlögunum.

Gagnkvæmar ásakanir um linkind og hræsni ríða húsum. Engar tvær ríkisstjórnir þramma í takt. Hver fer sínar eigin leiðir, oftast með hliðsjón af heimavandamálum fremur en sameiginlegum hagsmunum hins vestræna heimshluta.

Hörðust er hin bandaríska gagnrýni á hendur Vestur-Þýzkalandi. Hún á sumpart við rök að styðjast. Ríkisstjórn Þjóðverja hefur veðjað of ákveðið, bæði stjórnmálalega og peningalega, á austurstefnu og ímyndaða slökun.

Þjóðverjar eiga 5% viðskiptahagsmuna sinna í Austur-Evrópu. Þeir eru í fararbroddi samtaka ýmissa ríkja Vestur-Evrópu um stóraukin kaup á gasi frá Sovétríkjunum. Þeir virðast ekki geta litið upp úr kaupsýslunni í austurvegi.

Vesturþýzk stjórnvöld hafa lagt sig í líma við að gera lítið úr herlögunum í Póllandi og þætti Kremlverja að baki þeirra. Þau hafa æmt minna en margir kommúnistaflokkar í Vestur-Evrópu, svo sem hinn fjölmenni Ítalíuflokkur.

Að þessu sinni hafa Frakkar verið harðari af sér. Þótt undarlegt megi virðast, er sósíalistinn Mitterand forseti mun eindregnari í afstöðu sinni til kommúnismans í Austur-Evrópu en hinir hægri sinnuðu forverar hans voru.

Frakkar hafa þó ekki alveg hreinan skjöld. Í Efnahagsbandalagi Evrópu börðust fulltrúar þeirra gegn stöðvun á sölu niðurgreiddrar mjólkur og kjöts til Sovétríkjanna í kjölfar herlaganna, en fengu því ekki framgengt.

Mest er hræsni Bandaríkjastjórnar, sem ber sér á brjóst á opinberum vettvangi, en tekur í raun viðskiptahagsmuni fram yfir hugsjónir. Dæmi þess er leyfi lnternational Harvester til að selja 300 milljón dala tæknibúnað til Sovétríkjanna.

Verra er þó, að stjórnin vill ekki beita þeim efnahagslegu refsiaðgerðum, sem mundu verða Kremlverjum óþægilegust. Það væri bann við hinni miklu kornsölu, sem Reagan forseti leyfði í sumar eftir þrýsting frá bændasamtökum.

Carter, fyrrum forseti, hafði stöðvað kornsöluna eftir hernaðaríhlutun Sovétríkjanna í Afganistan. Bannið hafði og mundi enn hafa verulegt gildi, því að uppskerubrestur er kerfislægur þar eystra ár eftir ár.

Í ósamlyndinu væri Vesturlöndum nær að sameinast um einfaldari og beinni aðgerðir gegn þeim aðila, sem ber formlega ábyrgð á herlögunum, það er herstjórninni í Póllandi, til dæmis með því að framlengja ekki vanskilalán og veita ekki ný.

Auðvitað væri betra, ef Vestur-Evrópa og Bandaríkin gætu komið sér saman um að færa fórnir, Bandaríkin með því að neita sér um kornsölu og Evrópa með því að neita sér um gaskaup. En um slíkt er tæplega raunhæft að biðja.

Staðreyndin er, að Vesturlönd búa feitar og saddar þjóðir, sem óðum hrekjast út í að vilja friðinn, hvað sem hann kostar. Þær geta ekki neitað sér um neitt til að halda uppi merki mannúðar og mannréttinda.

Hver þjóð heldur dauðahaldi í smáaura, sem hún telur sig geta hagnazt um í viðskiptum við grjótharðar ríkisstjórnir Austur-Evrópu. Eins og Lenín spáði munu þær í græðgi sinni selja Kremlverjum naglana í sínar eigin líkkistur.

Íslendingar ekki síður en aðrir.

Jónas Kristjánsson

DV