Vestrænir ábyrgðarmenn

Greinar

Kvörn stríðsglæpadómstólsins í Haag malar hægt en örugglega. Dómstóllinn hefur þegar einn Serba í haldi og hefur ákært nokkra tugi Serba og nokkra Króata fyrir stríðsglæpi. Glæpir þeirra eru taldir miklu ógeðfelldari en glæpir nazista í síðari heimsstyrjöldinni.

Komið hefur í ljós, að ekki eiga við rök að styðjast kenningar ýmissa bjálfa á Vesturlöndum um, að stríðsglæpir Serba séu uppfinning auglýsingastofu á vegum Bosníustjórnar. Þvert á móti hefur verið vanmetið, hve víðtækir og alvarlegir glæpirnir hafa verið.

Þá hefur breytilegt gengi stríðsaðila opnað aðgang blaðamanna að svæðum, sem áður voru bannsvæði. Þeim hefur með hjálp sjónarvotta tekizt að opna fjöldagrafir, sem staðfesta, að Serbar hafa framið miklu víðtækari og skipulegri fjöldamorð en áður hafði verið talið.

Þessar uppljóstranir hafa ennfremur leitt í ljós, að ýmsir æðstu embættismenn Sameinuðu þjóðanna í löndum fyrrverandi Júgóslavíu hafa reynt að leyna ógnarverkum Serba til þess að draga úr kröfum frá Vesturlöndum um réttarhöld gegn stríðsglæpamönnum.

Ömurleg frammistaða þessara embættismanna Sameinuðu þjóðanna er í stíl við samábyrgð samtakanna á nýjustu stríðsglæpum Serba í Srebrenica, þar sem 6000 borgurum undir yfirlýstum verndarvæng Sameinuðu þjóðanna var slátrað undir þeim sama verndarvæng.

Þrátt fyrir mikið umtal á Vesturlöndum hafa Serbar haldið áfram óbreyttum stríðsglæpum alveg frá upphafinu í Vukuvar til endalokanna í Srebrenica. Enginn einstakur glæpur nazista í síðari heimsstyrjöldinni var stórtækari en hinn nýlegi glæpur Serba í Srebrenica.

Eftir því sem sönnunargögnin hlaðast upp verður síður hægt að komast hjá því áliti, að Serbar séu geðbilaðir þúsundum saman, trylltir af sagnfræðilegu rugli og eigi alls ekki heima í siðuðu samfélagi Vesturlanda. Öll hin krumpaða þjóð verður að bera glæpinn fram á veginn.

Forustumenn Serba í Bosníu, Radovan Karadzic og Ratko Mladic, hafa verið ákærðir af stríðsglæpadómstólnum í Haag. Síðan hefur bætzt við ábyrgð Mladics á morðunum í Srebrenica, sem hann stjórnaði persónulega. Sjónarvottar eru að því Evrópumeti í glæpum.

Bönd stríðsglæpadómstólsins í Haag berast smám saman nær Slobodan Milosevic Serbíuforseta, sem stóð fyrir ógnaröldinni á Balkanskaga og stefnu þjóðahreinsana, sem fæddi af sér stríðsglæpina. Tveir foringjar Serbíuhers hafa þegar verið ákærðir af dómstólnum.

Því miður eru horfur á, að Milosevic sleppi, því að hann hefur nú snúið við blaðinu og þykist vera friðarsinni. Ef hann nær völdum í hinum serbneska hluta Bosníu af Karadzic og Mladic og sér um, að friðarsamningar haldi, verður hann líklega látinn njóta þess.

Uppljóstranir stríðsglæpanna í Serbíu eru svo vel á veg komnar, að ólíklegt er, að ráðamönnum og embættismönnum á Vesturlöndum takizt að stöðva framgang réttarhalda og dómsniðurstaðna í Haag, þótt þeir hafi margir hverjir reynt að hefta framgang málsins.

Helztu aðferðirnar gegn dómstólnum hafa hingað til falizt í að reyna að koma í veg fyrir, að hann komizt yfir leyndarskjöl um stríðsglæpina. Það hefur aðeins tekizt að hluta. Næst verður reynt að draga úr fjármögnun dómstólsins og svelta hann til að rifa seglin.

Þegar stríðsglæpir Serba verða krufnir til beins, verður ekki gleymt aðild ýmissa vestrænna ráðamanna og embættismanna, sem reyna enn að drepa málinu á dreif.

Jónas Kristjánsson

DV