Vestrænir aular

Greinar

Símahleranir hafa leitt í ljós, að her Bosníu-Serba er stjórnað af yfirmönnum júgóslavneska hersins. Ennfremur hafa fundizt skjöl, sem sýna, að yfirmönnum og verkstjórum herja Serba eru greidd laun af júgóslavneska hernum. Óargadýrin lúta yfirstjórn.

Einnig er ljóst, að það var júgóslavneski herinn, sem miðaði út bandarísku könnunarþotuna, sem skotin var niður yfir Bosníu. Loks hefur komið í ljós, að Júgóslavíustjórn hefur áfram haldið að búa Bosníu-Serba vopnum og vistum, þrátt fyrir formlega lokun landamæranna.

Áður var vitað, að Milosevits Serbíuforseti hóf stríðið í Bosníu. Hann réð strax stefnu stríðsins, sem fólst í, að geðveikum óargadýrum var sigað á óbreytta borgara, með skipulögðum morðum og nauðgunum, pyndingum og hreinsunum á tugþúsundum sakleysingja.

Lengi hefur verið vitað, að helztu ráðamenn Bosníu- Serba eru snargeðveikir morðingjar, þar á meðal Radovan Karadzik forseti og Radco Mladic herstjóri. Stríðsglæpadómstóllinn í Haag hefur mál þeirra til meðferðar. Raunveruleg ábyrgð á stríðsglæpum Bosníu-Serba hvílir þó hjá Slobodan Milosevits Júgóslavíuforseta.

Þótt allir aðilar í styrjöld Serba, Króata og Bosníumanna hafi framið stríðsglæpi, er þó komið í ljós, að meira en 90% glæpanna hafa verið framdir af Serbum og í þágu krumpaðrar hugsjónar um Stór-Serbíu, sem er undirrótin að hörmungum almennings á Balkanskaga.

Ráðamenn Vesturlanda hafa vitað þetta árum saman, þótt þeir reyni að þegja yfir því. Það hefur lengi verið vitað, að Milosevits Júgóslavíuforseti segir aldrei satt orð, en fer sínu fram með undirferli og svikum. Samt eru vestrænir ráðamenn sífellt að semja við hann.

Umboðsmenn vestrænna ráðamanna og ráðamanna Sameinuðu þjóðanna eru sí og æ að skrifa undir marklaus plögg á borð við vopnahléssamninga og senda ráðamönnum Bosníu-Serba marklaus hótunarbréf. Mótaðilinn hefur aldrei tekið mark á neinum slíkum pappírum.

Þótt þetta sé allt hin mesta sorgarsaga, er hún ekki gagnslaus með öllu. Þeir, sem vita vilja, sjá nú, að Vesturlöndum er undantekningarlítið stjórnað af villuráfandi aumingjum, sem eru ófærir um að takast á við verkefni, er krefjast greindar, framsýni og áræðis.

Þetta gildir raunar ekki aðeins um ráðamenn stærstu ríkjanna á Vesturlöndum, svo sem Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Þýzkalands, heldur einnig nokkurra annarra ríkja, sem hafa með ýmsum hætti stuðlað að hneykslinu, svo sem ráðamenn Grikklands og Spánar.

Þetta gildir líka um sáttasemjara, herstjóra og aðra umboðsmenn umheimsins á Balkanskaga. Frægur af endemum er pólitískur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna á svæðinu. Einnig hafa sáttasemjararnir staðið sig afar illa, þeir Vance, Owen og Stoltenberg. Þeir hafa leikið fífl.

Engin atburðarás hefur opnað þvílíka innsýn í hnignun og hrun Vesturlanda. Með afskiptum sínum af málinu hefur Nató reynzt vera farlama öldungur, sem er gersamlega ófær um nokkuð annað en að nöldra og væla. Tilgangsleysi Nató eftir lok kalda stríðsins er kristaltært.

Atburðarásin hefur sýnt, að þjóðskipulag Vesturlanda leiðir nú til vals á ráðamönnum og öðrum ábyrgðarmönnum, sem kunna að geta ráðið við hversdagsleg viðfangsefni heima fyrir, en eru alveg ófærir um að gæta víðra langtímahagsmuna Vesturlanda í umheiminum.

Þessir ráðamenn og ábyrgðarmenn munu reynast jafn óhæfir um að mæta öðrum aðsteðjandi vandamálum, svo sem af hálfu ofsatrúarmanna og hryðjuverkamanna.

Jónas Kristjánsson

DV