Vestrænir sem fyrr.

Greinar

Viðhorf Íslendinga til Varnarliðsins og Atlantshafsbandalagsins hafa ekki breytzt. Af þeim, sem afstöðu taka í skoðanakönnunum, eru tveir af hverjum þremur fylgjandi Varnarliðinu og fjórir af hverjum fimm fylgjandi Atlantshafsbandalaginu.

Þetta kemur fram í skoðanakönnun um Varnarliðið, sem birtist hér í blaðinu á fimmtudaginn, og um Atlantshafsbandalagið, sem birtist í dag. Þetta eru nokkurn veginn sömu tölur og verið hafa frá upphafi slíkra kannana árið 1968.

Sérstaklega er þessi festa áberandi í viðhorfum manna til Varnarliðsins. Árið 1008 voru 63,3% því fylgjandi og 36,7% andvígir. Árið 1980 voru 63,6% fylgjandi og 36,4% andvígir. Og nú eru 63,6% fylgjandi og 36,4% andvígir.

Frávik frá þessum stöðugleika hafa einungis komið í ljós í þorskastríðum okkar við Breta. Þá rýrnaði stuðningurinn, bæði við Varnarliðið og Atlantshafsbandalagið, en fór samt aldrei niður úr öruggum meirihluta.

Með því að bera saman skoðanir Íslendinga á Varnarliðinu annars vegar og Atlantshafsbandalaginu hins vegar má skipta þjóðinni í þrjá misstóra hluta í afstöðunni til þessa mikilvæga þáttar í utanríkismálum okkar.

Fjölmennastir eru þeir, sem bæði styðja varnarliðið og Atlantshafsbandalagið. Þeir eru 64%. Á hinum kantinum eru svo þeir, sem hvorki styðja Varnarliðið né Atlantshafsbandalagið. Þeir eru aðeins 21% þjóðarinnar.

Á milli þessara póla er svo fámennasti hópurinn, sem fylgir Atlantshafsbandalaginu, en ekki Varnarliðinu. Þeir eru 15%. Það eru þeir þjóðernissinnar sem eru fylgjandi vestrænu varnarsamstarfi, en vilja ekki her í landi.

Athyglisvert er, að andstæðingar aðildar okkar að Atlantshafsbandalaginu og veru Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eru litlu fjölmennari en kjósendur Alþýðubandalagsins. Hinir fyrrnefndu eru 21% og hinir síðarnefndu 18% þjóðarinnar.

Festan í fimmtán ára tímabili skoðanakannana um þessi mál verður enn athyglisverðari, ef tekið er tillit til, að margt hefur gerzt í heiminum síðan 1968. Forsendur viðhorfanna hljóta að hafa breytzt að einhverju leyti.

Sovétstjórnin er nú berari en áður sem hættulegt óróaafl í heiminum. Nú orðið þarf að leita með logandi ljósi að fólki, sem styður atferli sovétstjórnarinnar heima fyrir, í leppríkjunum og úti um allan heim.

Hin aukna óbeit manna á Sovétstjórninni hefur samt ekki orðið til að fjölga stuðningsmönnum vestræns varnarsamstarfs. Þar hljóta að hafa komið til sögunnar atriði, sem vega á móti skilningi manna á eðli Sovétstjórnarinnar.

Annars vegar gæti verið um að ræða áhrif hinnar meira eða minna einhliða friðarhreyfingar á Vesturlöndum. Óttinn við kjarnorkuvopn hefur dregið úr áhuga margra á, að Vesturlönd etji vígbúnaðarkappi við fangabúðarstjórana.

Hins vegar gæti einnig verið um að ræða tímabundin áhrif af setu Ronald Reagan í stóli forseta Bandaríkjanna. Margir óttast, að hann sé síðri friðarsinni en undanfarandi forsetar. Þeir bíða eftir öðrum skárri.

Allar hugleiðingar um ýmsar slíkar forsendur eru þó lítils virði í samanburði við tölurnar sjálfar. Þær sýna, að almenningsálit Íslendinga styður eindregið vestrænt varnarsamstarf og þátt Keflavíkurflugvallar í því samstarfi.

Jónas Kristjánsson

DV