Vestrænn viljaskortur

Greinar

Rússland hefur endurheimt hluta af heimsveldisstöðu Sovétríkjanna og er nú orðið að mestu valdamiðstöð Evrópu. Rússland ræður til dæmis ferðinni á og við áhrifasvæði Serba og mun tryggja, að landvinningar þeirra verði að mestu leyti staðfestir af umheiminum.

Rússland er dæmi um, að ástand efnahags og viðskipta ræður litlu um valdastöðu ríkja í umheiminum. Hagur Rússlands er í rúst, en samt reynist ríkinu kleift að halda uppi endurvakinni útþenslustefnu, sem felst í miklum og vaxandi afskiptum af málum nágrannaríkja.

Serbía er enn skýrara dæmi um þessa reglu. Þjóðfélagið er þar margfaldlega gjaldþrota frá sjónarhóli efnahags og viðskipta. Það kemur ekki í veg fyrir, að Serbía hafi rekið og reki enn árangursríka landvinningastefnu á kostnað nágrannaríkjanna. Og komist upp með það.

Áhrif ríkja í umheimi sínum fara ekki eftir stærð þeirra og styrk og fjölda viðskiptatengsla við útlönd. Áhrifin fara eftir vilja ríkja til að hafa áhrif. Þessi viljastyrkur hvarf um tíma í Rússlandi eftir hrun Sovétríkjanna, en er nú óðfluga að magnast á nýjan leik.

Það nægir til dæmis ekki Bandaríkjunum að vera rík og hafa góð sambönd um allan heim, þegar viljann skortir til að fylgja eftir áður fenginni heimsveldisstöðu. Í leiðara DV á laugardaginn var bent á hrakfarir Bandaríkjanna í málum Kína, Norður-Kóreu, Sómalíu og Haítí.

Enn síður nægir Evrópusambandinu og valdaríkjum þess að hafa mikil efnahagsumsvif. Það þarf pólitískan og hernaðarlegan vilja til að byggja upp aukin áhrif um heila álfu eða stærra svæði. Þennan vilja hefur hvorki Evrópusambandið í heild né helztu valdaríki þess.

Vanmáttur Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og ekki sízt hernaðarsamstarfs Bandaríkjanna og Evrópu í Atlantshafsbandalaginu hefur birzt skýrt í málum Serbíu. Eftir margra mánaða japl og jaml og fuður tók Rússland frumkvæðið í Bosníu og mun ráða niðurstöðunni.

Í laugardagsleiðara DV voru rakin dæmi um, hvernig hver dólgurinn á fætur öðrum í þriðja heiminum gefur Bandaríkjunum langt nef og sumir þeirra hafa þau að fífli. Þetta álitshrun varð einkum í kjölfar vangetu Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins í málum Serbíu.

Hvarvetna um heiminn sjá menn nú Bandaríkin sem pappírstígrisdýr á svipuðu valdastigi og Evrópusambandið. Menn sjá, að þessi pólitísku öfl kvarta og kveina og hóta ekki síður út og suður, án þess að nokkru sinni sé gert ráð fyrir, að standa þurfi við stóru orðin.

Breytingin er studd þeirri staðreynd, að Vesturlönd eru að missa hæfni til að velja raunverulega leiðtoga. Fjölmennustu ríkjunum ráða markaðssett smámenni á borð við John Major í Bretlandi. Einkum ber á þessu í Bandaríkjunum með hverju smámenninu á fætur öðru.

Clinton Bandaríkjaforseti fór í vetur sneypuför um Austur-Evrópu. Heima fyrir var ferðin túlkuð sem sigurganga, en hafði í raun neikvæð áhrif. Daginn eftir að hann var farinn frá ríkjum á borð við Úkraínu og Rússland, færðist aukin harka í utanríkisstefnu ríkjanna.

Clinton og hirð hans bera lítið skynbragð á utanríkismál. Þar á ofan eru þessir aðilar svo sambandslitlir við veruleikann, að þeir ímynda sér, að kjaftagangur og sífelldar hótanir geti komið í staðinn fyrir, að verkin tali. Þessi vestræni vandi er einna verstur í Bandaríkjunum.

Vegna vestræns viljaskorts hefur Rússland stokkið inn í valdaeyðuna, sem myndazt hefur í Evrópu, alveg eins og Kína hefur stokkið inn í valdaeyðuna í Asíu.

Jónas Kristjánsson

DV