Vestrið er berskjaldað

Greinar

Vopnaðir lambhúshettumenn frá Íslandi eða Spáni hefðu ekki getað hindrað hryðjuverkið í járnbrautarlestunum í Madrid né komizt að því, hverjir frömdu ódæðið. Lambhúshettumenn henta betur til að ná afsöguðum haglabyssum af dauðadrukknum Íslendingum, sem hafa keypt of mikið áfengi í Ríkinu.

Dálkahöfundurinn Nicholas D. Kristof ræddi í New York Times í vikunni um tvo möguleika á hryðjuverkum í New York. Annar er skjalatösku-atómsprengja í Grand Central, sem mundi drepa hálfa milljón manns. Hinn er kóbaltsprengja í Wall Street, sem mundi gera borgarhlutann óbyggilegan í marga áratugi.

Auðvelt var að útvega dýnamítið, sem notað var í Madrid. Svipuðu magni hefur meira að segja verið stolið úr augljósum geymslum á Íslandi. Sprengihæft kóbalt fæst í eins þumlungs breiðum og eins fets löngum stöngum, sem eru notaðar í hundraðatali við geislum matvæla í bandarískum fyrirtækjum.

Lykilþættir í atómsprengjum hafa verið á frjálsum markaði. Komizt hefur upp um Abdul Kader Kahn, sem sá um framleiðslu atómsprengja í Pakistan. Hann græddi stórfé á að selja afurðir sínar til Líbíu og Norður-Kóreu. Þar sem hann er heittrúarmaður, óttast menn, að hann hafi selt til Al Kaída.

Menn óttast líka, að atómsprengjur hafi farið á markaðinn eftir upplausn Sovétríkjanna, þegar eftirlit var í molum og lykilmenn gátu drýgt sultarlaun með því að koma slíkri vöru á framfæri við lysthafendur í útlöndum. Ekki hefur tekizt að gera grein fyrir öllum atómvopnum Sovétríkjanna.

Vandamál Vesturlanda í öllu þessi öryggisleysi er, að viðbrögð yfirvalda eru að töluverðu leyti gagnslaus og að því leyti verri en gagnslaus, að þau dreifa athyglinni frá raunverulegri hættu á borð við dýnamítið í Madrid. Efling vopnaðra sveita lambhúshettumanna er dæmi um slík mistök.

Alvarlegust eru mistökin í Bandaríkjunum, þar sem utanríkisstefnan snýst eingöngu um að tryggja endurkjör forsetans. Þar er stefnt að handtöku Osama bin Laden í tæka tíð fyrir kosningar. Til þess þarf aðstoð Pakistans og þess vegna er verzlunarferill Abdul Kader Kahn ekki kannaður.

Af innanpólitískum ástæðum í Bandaríkjunum hefur orku, fé og fólki verið fórnað í styrjöld gegn Írak, sem átti engin gereyðingarvopn og enga alþjóðlega hryðjuverkamenn fyrir stríð. Í staðinn hafa Pakistan og Sádi-Arabía verið látin í friði, þar sem er uppspretta trúarofstækis gegn vestrinu.

Aukin vopnaleit í farangri er margfalt öflugra tæki gegn hryðjuverkum á borð við ódæðið í Madrid heldur en vopnaðir lambhúshettumenn og styrjaldir með tilheyrandi stríðsglæpum Bandaríkjanna, sem magna hatrið og næra hryðjuverkin.

Jónas Kristjánsson

DV