Menn væntu vestrænna framfara í Persíu, þegar Mohammad Katami varð forseti þar árið 1999. Menn bentu á vestrænan lífsstíl stúdenta og sögðu, að þar væri framtíðin. Erkiklerkarnir mundu smám saman hverfa í skuggann. Þetta gerðist ekki, vestrænir álitsgjafar og stjórnmálamenn höfðu ekki skilið stöðu trúarbragða í þjóðfélagi Persa. Þar ríkir róttæk trú sjíta, sem nánast frá upphafi íslams hefur verið andvíg meginstraumi súnníta í trúmálum. Katami náði engum árangri og verkfræðingurinn Mamúd Amadinejad varð forseti í fyrra. Fyrst neituðu menn að horfast í augu við, að hann var róttækur sjíti. Nú átta menn sig loksins á, að hann stefnir eindregið gegn Vesturlöndum og hefur þjóðina með sér.