Baráttan milli vestrænna ríkja fer harðnandi í kjölfar árásarinnar á Írak. Frakkland og Þýzkaland hafa myndað vísi að nýju varnarbandalagi með Belgíu og Luxemborg. Í Evrópusambandinu hafa kjarnaríkin Frakkland og Þýzkaland rúmlega helming efnahagslífsins og hyggjast nú breikka og dýpka samstarf sín í milli, einkum í hermálum. Bretland ítrekar, að heimurinn hafi aðeins einn stjórnmála- og hernaðarpól, þar sem eru Bandaríkin. Rússland hefur hafnað þessari einræðiskenningu og færist nær Frakklandi og Þýzkalandi. Þar sem róttækar hægri stjórnir eru við völd, á Ítalíu, Spáni, Danmörku og Íslandi, styðja þær Bandaríkin, sömuleiðis Pólland og sumar fleiri stjórnir í Austur-Evrópu, en aðrar tvístíga vegna viðskiptahagsmuna í Evrópusambandinu. Almenningur í öllum þessum löndum er hins vegar algerlega andvígur stríðinu við Írak og heimsyfirráðum Bandaríkjanna. Atlantshafsbandalagið er sjálfdautt, því að það getur ekki gert neitt nema einum rómi.