Vetnisbúskapur á Íslandi

Greinar

Flest rök hníga að því, að vetni muni á næstu öld leysa olíu og benzín af hólmi sem orkugjafi hreyfanlegra tækja, svo sem bíla, skipa og flugvéla. Vetni muni bægja frá mannkyni vofu samfélagshruns, þegar takmarkaðar olíu- og gaslindir ganga smám saman til þurrðar.

Því meira sem gengur á olíulindir, þeim mun meiri líkur eru á, að olía og benzín hækki í verði í skjóli lögmálsins um framboð og eftirspurn. Ekki bætir úr skák, að mikið af olíulindum er í ríkjum, þar sem ríkisstjórnir eru hvimleiðar, illa útreiknanlegar og árásarhneigðar.

Vetni er tiltölulega umhverfisvænn orkugjafi. Brennsla þess leiðir ekki til losunar hættulegra efna út í andrúmsloftið. Olíu- og benzínbrennsla framleiðir hins vegar koltvísýring, sem veldur gróðurhúsaáhrifum og leiðir síðan til hækkunar á yfirborði sjávar.

Hér á landi stafa tveir þriðju hlutar allrar koltvísýringsmengunar af brennslu á olíu og benzíni í skipum og bílum. Breyting frá þessum orkugjöfum yfir í vetni mundi gera Íslendingum kleift að standa við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi um minni mengun.

Með færslu yfir í vetni mundi einnig skapast svigrúm til að reisa hér fleiri stóriðjuver, til dæmis til framleiðslu áls og magnesíums, án þess að brjóta Ríó-sáttmálann um minnkun mengunar. Það væri óneitanlega afar þægileg útkoma í annars vonlausu reikningsdæmi.

Stóriðja veldur yfirleitt mengun. Nýjar verksmiðjur og stækkaðar verksmiðjur hér á landi valda því, að Ísland nálgast ekki loforð sín frá Ríó, heldur fjarlægist þau. Við erum í þessum skrifuðum orðum að brjóta samninginn og að lækka gengi íslenzkra loforða.

Áhugi manna á meiri stóriðju hér á landi hlýtur að leiða til aukins þrýstings á aukna notkun vetnis sem mótvægis á vogarskálum mengunar. Um leið má virkja áhuga erlendra aðila til samstarfs um að nota íslenzka orku fallvatna og jarðhitasvæða til vetnisframleiðslu.

Það mundi enn bæta stöðu okkar og draga úr innri andstöðu gegn stóriðju, ef stjórnvöld tækju upp borubrattari stefnu í mengunarmálum iðjuvera í stað þess að slá af kröfum um mengunarvarnir. Með betri frágangi iðjuvera má stórminnka mengun af völdum þeirra.

Ýmsir aðilar víða um heim vinna nú ötullega að gerð véla, sem henti betur vetni sem eldsneyti en núverandi benzín- og olíuvélar. Sú þróun er stöðug og mun fyrr eða síðar leiða til, að vetni verði álitinn fjárhagslega hagkvæmari kostur en hinir hefðbundnu orkugjafar.

Mikilvægt er, að stjórnvöld og atvinnulíf taki saman höndum um að rækta skilyrði til vetnisnotkunar sem orkugjafa hér á landi. Það má til dæmis gera með samstarfi við þá, sem vinna að hönnun véla til brennslu á vetni. Þeir gætu gert tilraunir sínar hér á landi.

Allt, sem hér hefur verið sagt, er hrein framtíðarsýn. Hún gæti orðið að veruleika, en verður það ekki, af því að íslenzk stjórnmál gera ekki ráð fyrir þeim möguleika, að horft sé fram á veginn. Menn vilja heldur dunda sér við að leysa brýnustu vandamál sín frá degi til dags.

Í fyrra bjó ríkisstjórnin til heildstæða og skynsamlega stefnu í tölvusamgöngum. Litprentaður var fagur bæklingur um stefnuna. Síðan hefur ekki verið unnið eitt einasta handarvik til að framkvæma hana. Hér á landi endar framtíðarsýnin í litmyndum af ráðherrum.

Hið sama verður uppi á teningnum, ef ríkisstjórnin tæki mark á því, sem hér hefur verið sagt, og léti færustu menn framleiða opinbera stefnu í vetnisbúskap.

Jónas Kristjánsson

DV