Við Austurvöll

Greinar

Þótt Hótel Borg sé ekki bezti húsnæðiskostur Alþingis um þessar mundir, er mun betra og skynsamlegra að kaupa húsið en að reisa víðáttumikinn alþingiskassa á öllum lóðunum vestur að Tjarnargötu og suður að Vonarstræti, eins og áður hafði verið ráðgert.

Kostnaðurinn skiptir miklu. Nýtt alþingishús hefði kostað hálfan þriðja milljarð króna og raunar fjóra milljarða að áliti sumra. Hótel Borg mun hins vegar ekki kosta nema 150­250 milljónir. Lagfæringar munu ekki þurfa að kosta heilar 100 milljónir að auki.

Fyrir Alþingi er auðvitað góður kostur að eignast fallegt, gróið, sögufrægt og virðulegt hús á tíunda hluta þess verðs, sem kostað hefði að reisa hinn forljóta alþingiskassa, jafnvel þótt það þýddi um leið, að áfram yrði að nota Þórshamar undir hluta af starfseminni.

Í víðara samhengi eru hins vegar annmarkar á breytingu Hótels Borgar í þingmannahús. Frá Reykjavíkurborg hefur komið það augljósa sjónarmið, að ekki sé gott fyrir mannlíf í kvosinni og borgarlífið almennt, að opinber stofnun ryðji hóteli og veitingasal úr vegi.

Í umræðum um þetta hafa augu manna beinzt að öðrum húsum við Austurvöll. Alþingi hefur þegar ráðizt inn í hús, sem stendur milli torgsins og Austurstrætis. Hér í blaðinu hefur einnig oftar en einu sinni verið bent á hús Pósts og síma við vesturhlið Austurvallar.

Póstur og sími þurfa alls ekki að vera í kvosinni. Mestur hluti starfseminnar hefur raunar flutzt austur í bæ, á svæðið milli Suðurlandsbrautar og Ármúla. Þar eða annars staðar mætti reisa hús fyrir þann hluta, sem enn er í húsunum við Austurvöll og Kirkjustræti.

Byggingar Pósts og síma í kvosinni eru gott dæmi um hin lamandi áhrif víðáttumikilla skrifstofuhúsa á mannlíf á svæðinu. Svipuð áhrif mundi nýtt alþingishús hafa: ­ að fólk gengi meðfram löngum húsveggjum, þar sem er engin starfsemi, er það þarf að nota.

Í skrifstofuhúsbáknum af þessu tagi þarf að taka jarðhæðina undir verzlanir og þjónustu, veitingahús og krár, svo og aðra starfsemi, sem kallar á umferð almennings. Þetta gleymdist við hönnun alþingishússins, sem vonandi hefur nú verið endanlega afskrifað.

Ef Alþingi keypti hús Pósts og síma við Austurvöll og Kirkjustræti til eigin skrifstofuhalds, væri skynsamlegt að taka neðstu hæðina til óskyldra nota. Þá hæð ætti að leigja út til verzlunar og annarrar þjónustu fyrir almenning. Það mundi auka mannlíf á svæðinu.

Í staðinn gæti Reykjavíkurborg fengið Hótel Borg. Húsið má sameina Reykjavíkurapóteki með nýjum inngangi, þar sem nú er listhúsið Borg. Við endurhönnun inngangsins er brýnt að taka nákvæmt tillit til hinnar gömlu hönnunar Reykjavíkurapóteks og Hótel Borgar.

Ef slík endurhönnun tækist vel, væri fengið ráðhús, sem spannaði alla austurhlið Austurvallar. Þá væri ráð hús borgarinnar við ráðhústorg eins og vera ber. Hinn hefðbundni ráðhúskjallari væri þar sem veitingasalur Borgar er, hefðbundinn samkomustaður kjaftaska.

Milli gömlu húsanna við Kirkjustræti og Tjarnargötu mætti svo reisa hús í sama stíl og þau eru og gera samanlagt úr þeim hið bráðnauðsynlega ráðhústorgs-hótel, með inngangi við hornið á Austurvelli. Þetta væri hótel, sem minnti að nokkru á Pulitzer í Amsterdam.

Þótt margt sé þannig betra en að flytja skrifstofur Alþingis á Hótel Borg, er sú hugmynd þó mun betri en alþingiskassinn, sem áður stóð til að reisa.

Jónas Kristjánsson

DV