Efnahags- og framfarastofnunin OECD spáir 5,2% verðbólgu á Íslandi á næsta ári, meira en þrefaldri verðbólgu ríkja Evrópusambandsins, þar sem spáð er um 1,5% verðbólgu á næsta ári. Meðan verðbólga lækkar í nágrannalöndunum hækkar hún hér á landi.
Í fyrra vorum við á svipuðu róli og aðrar þjóðir Vestur-Evrópu með rúmlega 2% verðbólgu og höfðum þá búið við langvinnt góðæri lágrar verðbólgu. Í ár hafa leiðir skilið. Evran var tekin upp á meginlandinu og skilaði sér þar í strangari stjórn efnahags- og fjármála.
Við tókum hins vegar strikið upp á við, sumpart vegna ofhitnunar í gufukötlum efnahagslífsins, sumpart vegna gjafmildi stjórnvalda gagnvart kjósendum og starfsfólki á kosningaári og sumpart vegna aukinnar fákeppni í verzlun, svo sem forsætisráðherra hefur bent á.
Stjórnvöld hafi takmarkaða möguleika á að ráða við suma þætti verðbólgunnar. Keppinautar hafa uppgötvað þægindin af auknum samráðum og minnkandi samkeppni. Með samruna fyrirtækja hefur samkeppni verið breytt í fákeppni og fákeppni breytt í fáokun.
Verðbólga mun enn aukast, ef bankar sameinast og breyta fákeppni sinni í fáokun. Þetta væri þolanlegt, ef erlendir bankar tækju upp þráðinn með útibúum hér á landi, en því miður virðist Ísland ekki áhugaverður markaður á þessu sviði fremur en ýmsum öðrum.
Stjórnvöld geta reynt að opna hagkerfið betur og laða hingað erlenda keppinauta á ýmsum sviðum, í bankaviðskiptum, tryggingum, olíuverzlun, flugi og á öðrum þeim sviðum, þar sem 80% markaðarins eru í höndum örfárra fyrirtækja, sem kunna að sameinast þá og þegar.
Stjórnvöld hafa takmarkaða möguleika á að ráða við almenna kjarasamninga, þótt þau geti sjálfum sér kennt um að hafa gefið tóninn með gífurlegum hækkunum til stjórnmála- og embættismanna ríkisins og nokkrum hækkunum til sumra hópa ríkisstarfsmanna.
Stjórnvöld geta samt haft óbein áhrif með því að haga málum á þann hátt, að samtök launafólks sjái hag í að fara með löndum í kröfum. Það gerist til dæmis með því að sýna fram á trúverðugar aðgerðir á öðrum sviðum til að koma verðbólgunni niður í evrópska staðla.
Efnahags- og framfarastofnunin hvetur til meira aðhalds stjórnvalda í ríkisfjármálum. Slíkt aðhald felst ekki í að selja ríkiseignir til að halda uppi óbreyttum dampi á ríkisútgjöldum. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar bendir því miður til freistinga af slíku tagi.
Ríkisvaldið þarf í stóru og smáu að hafa mikið hóf á fjárfestingum sínum á næsta ári. Mest munar um að hætta við ýmsar stórframkvæmdir ríkisins og að hleypa ekki heldur Fljótsdalsvirkjun í gang, því að hún ein er ávísun á hrikalega spennu í efnahagslífinu.
Beina þarf athyglinni frá atvinnuþróun, sem felur í sér gífurlegan fjárfestingarkostnað af hverju atvinnutækifæri, og að atvinnuþróun, sem felur í sér lágan fjárfestingarkostnað af hverju atvinnutækifæri. Falla ber frá áliðjudraumum og efla heldur þekkingariðnað.
Verkefnið er ekki lítið. Koma þarf verðbólgunni úr hinum spáðu 5,2% niður í þau 1,5%, sem spáð er í Vestur-Evrópu almennt. Við megum ekki missa af jafnvæginu, sem felst í að búa við svipaða festu í fjármálum og efnahagsmálum og aðrar þjóðir Vesturlanda.
Brýnt er, að ríkisstjórnin fari sem allra fyrst að láta í sér heyra um, hvaða leiðir hún hyggst fara til að tryggja sömu festu hér á landi og í viðskiptalöndum okkar.
Jónas Kristjánsson
DV