Við eigum afmæli.

Greinar

DV á fjögurra ára afmæli í dag, 26. nóvember. Um svipað leyti eiga forverar blaðsins merkisafmæli. Elzta dagblað landsins, Vísir, verður 75 ára 10. desember og Dagblaðið varð tíu ára 8. september. Það er því þreföld ástæða til fagnaðar.

DV minnist þessara tímamóta með áþreifanlegum hætti. Í fyrsta lagi er flutt í nýtt og eigið húsnæði, sem reist hefur verið yfir allan rekstur fyrirtækisins. Í öðru lagi er verið að taka í notkun á blaðinu eitt af stærstu tölvukerfum landsins.

Fram til þessa hefur DV verið til húsa á ýmsum stöðum í Reykjavík. Samgangur hefur því oft verið tafsamur. Þetta hefur háð starfseminni og vafalaust komið niður á lesendum og auglýsendum. Nú er þessu frumbýlingsskeiði að ljúka.

Nýja húsið er að Þverholti 11, aðeins steinsnar frá Hlemmtorgi, miðstöð samgangna í borginni. Ritstjórn og prentsmiðja fluttu þangað búferlum um helgina. Áður höfðu almenna skrifstofan, afgreiðsla og smáauglýsingadeild komið sér þar fyrir. Innan skamms verður auglýsingadeildin komin þangað líka.

Um leið er tekin upp í öllum deildum blaðsins hin fullkomnasta tækni, sem völ er á. Þungamiðja tækninnar er tölvukerfi frá Norsk Data. Það er óvenjulegt að því leyti, að það spannar allar deildir DV, framleiðslu, hönnun, ritstjórn, orðaskiptingu, safnvinnslu, auglýsingar, áskrift, dreifingu, viðskipti og bókhald.

Þetta er eitt af stærstu, fasttengdu tölvukerfum landsins. Fjórar samtengdar tölvur með samanlagt tólf milljón stafa innra minni og tæplega tveggja milljarða stafa diskaminni þjóna 61 útstöð. Rúmlega þrír fjórðu hlutar kerfisins eru þegar komnir í notkun.

Sem dæmi um fullkominn hugbúnað tölvukerfisins má nefna, að því tekst að skipta orðum milli lína með 95% nákvæmni samkvæmt íslenzkum reglum. Það er mun meiri nákvæmni en áður hefur náðst á þessu sviði. Talið er, að með viðbótaraðgerðum megi koma nákvæmninni upp í 98%.

Önnur mikilvæg endurbót í tækninni eru tvær nýjar tölvur, sem setja texta blaðsins með leysigeisla. Hraði þeirra í vinnslu er gífurlegur, miklu meiri en svarar öllu því, sem gefið er út á íslenzku. Þar að auki eru leturgæðin mun betri, svo sem lesendur geta séð. Þær eru beint tengdar tölvukerfinu.

Búast má við, að einhverjar truflanir verði, meðan verið er að slípa hina nýju tækni. Vonum við, að lesendur og auglýsendur taki slíku með þolinmæði og skilningi, enda verði aðlögunartíminn sem allra stytztur.

Þessar miklu og dýru framkvæmdir eru merki um árangurinn, sem DV hefur náð á fjögurra ára ferli. Þær sýna, að ekki hafa rætzt hrakspár margra við sameiningu Dagblaðsins og Vísis, heldur stendur nýja blaðið traustum fótum.

Velgengnin er fyrst og fremst lesendum að þakka. Þeir hafa flykkzt að blaðinu og síðan haldið tryggð við það. Þeir hafa með stuðningi sínum gert blaðinu kleift að ráðast í stórvirki. Árangurinn er núna kominn í ljós.

Aðstandendur og starfslið DV vilja nota nýja og betri aðstöðu og tækni til að varðveita traust lesenda og halda áfram að gefa út frjálst og óháð blað, sem er fyrst með fréttirnar og þiggur ekki styrk úr hendi hins opinbera.

Jónas Kristjánsson

DV