Við erum enn að læra

Greinar

Fiskmarkaðurinn, sem hófst í Hafnarfirði í þessari viku, er mikilvægt spor í atvinnusögu Íslendinga. Hann er þáttur í hruni skipulagsstefnunnar, sem átti fyrra blómaskeið sitt á einokunartíma einveldiskonunga og hið síðara á verðlagsráðatíma framsóknarmanna.

Loksins er farið að verðleggja fisk hér á landi á sama hátt og tíðkazt hefur frá örófi alda annars staðar í heiminum. Við erum að eignast okkar Billingsgate, Fulton og Rungis. Markaðshyggjan hefur haldið innreið sína í langsamlega mikilvægustu atvinnugrein okkar.

Fyrsta uppboðið er strax farið að hafa áhrif. Kaupendur kvarta um, að seljendur kunni ekki að ísa fisk í kassa. Vafalaust mun misjafnt markaðsverð fljótlega leiða til, að sjómenn og skipstjórar læri að ganga þannig frá vörunni, að hún gefi hæst verð á markaði.

Eftir upphafið getum við farið að furða okkur á, hvernig okkur tókst að halda áratugum saman slíku dauðahaldi í skipulagsstefnuna, að við erum nú fyrst að veita okkur munað markaðsins. Við munum fljótlega hætta að skilja, hvernig gamla kerfið var kleift.

En á þessu andartaki þróunarinnar getum við um leið skilið, hvers vegna öll stjórnmálaöfl þjóðarinnar eru enn sammála um að halda áfram skipulögðu og dauðvona kerfi ríkisrekstrar í landbúnaði. Menn eru einfaldlega svona rígbundnir í hefðbundnum formum.

Allt til hins síðasta olli tilhugsunin um fiskmarkað mikilli skelfingu framsóknarflokksmanna allra flokka. Afturhaldsmönnum tókst að koma í veg fyrir, að fiskmarkaðir hæfust í vertíðarbyrjun eftir áramótin. Þeir gerðu það með því að halda áfram opinberu fiskverði.

Alþingismenn sæta oft strangri gagnrýni. En þeim til mikils hróss má þó segja, að þeir settu á ofanverðum vetrinum lög, sem heimiluðu stofnun fiskmarkaða í landinu. Þar með var grundvellinum skyndilega kippt undan hinu gamla verðlagningarkerfi hins opinbera.

Afturhaldið virðist ekki hafa áttað sig á, hvað var að gerast. Meðan menn kepptust við að innrétta fiskmarkaði í Hafnarfirði og Reykjavík, voru málsvarar hinna gömlu tíma að dunda sér í varnarstríði gegn frjálsu fiskverði og í heilagri krossferð gegn gámafiski.

Samband íslenzkra samvinnufélaga og helmingurinn af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna höfðu forustu um að verjast frjálsu fiskverði. Þegar fyrsti söludagur nýja markaðsins í Hafnarfirði var kominn í einnar viku nálægð, gafst þessi armur afturhaldsins skyndilega upp.

Lífseigari og alvarlegri er krossferðin gegn gámafiskinum. Forstjórar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda hafa skipulega reynt að blekkja þjóðina á því sviði, með öflugum stuðningi grófra fréttafalsana í Ríkissjónvarpinu.

Afturhaldið er enn að reyna að fá þjóðina til að trúa, að freðfiskur sé verðmætari en ferskur fiskur og að Evrópubandalagið tolli freðfisk meira en ferskan fisk í atvinnubótaskyni fyrir sinn eigin fiskiðnað. Allt er þetta hin aumasta lygi, sem hefur því miður síazt inn.

Fiskmarkaðurinn í Hafnarfirði og förunautar hans í Reykjavík og vonandi víðar um land munu slá vopnin úr höndum afturhaldsins. Íslenzkur fiskur mun hér eftir strax á hafnarbakkanum finna sitt markaðsverð, hvort sem hann síðan lendir í gámi, frystingu eða söltun.

Með fiskmörkuðum hafa Íslendingar stigið síðbúið risaskref inn í efnahagslega framtíð, sem öðrum þjóðum hefur verið kunn fortíð öldum og árþúsundum saman.

Jónas Kristjánsson

DV