Við erum farin að spara.

Greinar

Ekki eru allar fréttir slæmar af efnahagslífinu. Gleðilegt er, að jafnvægi virðist hafa náðst á lánamarkaði. Raunvextir eru orðnir svo háir, að peningar streyma til lánastofnana og gera kleift að fjármagna ótal verkefni án þess að auka skuldasúpu þjóðarinnar í útlöndum.

Þessi hagstæða þróun hófst í árslok 1983. Frá þeim tíma hafa innstæður aukizt um 18% í raunverulegum verðmætum. Sókn þessi hefur magnazt í ár. Innlán hafa aukizt tvöfalt meira en útlán á fyrri hluta ársins. Fólk kýs að leggja fyrir í stað þess að nota féð til misþarfra kaupa.

Raunvextir eru afar misjafnir hér á landi eftir tegundum fjárskuldbindinga. Áætlað hefur verið, að meðaltal þeirra sé um 5%. Í alþjóðlegum samanburði eru þetta fremur háir raunvextir. Algengast er, að þeir séu um 4% eins og í Bandaríkjunum og Japan.

Í Bretlandi og Kanada eru raunvextir um 5% eins og hér. Og til eru lönd, þar sem þeir eru mun hærri, svo sem Svíþjóð, þar sem raunvextir eru um 7%. Allar eru þessar tölur úr tímaritinu Economist. Samkvæmt þeim eru íslenzkir raunvextir ekki fjarri meðallagi.

Hér á landi er fjármagnshungur meira en í flestum öðrum löndum. Slík umframeftirspurn hlýtur að kalla á hærri raunvexti en venjulegir eru. Hún gerir meiri kröfur en ella til arðsemi framkvæmda og rekstrar, sem lánunum er ætlað að fjármagna.

Heyrst hafa raddir um, að raunvextir megi nú lækka, þar sem jafnvægi hafi náðst. Sú skoðun er varhugaverð. Lækkaðir raunvextir geta hæglega dregið úr, stöðvað eða snúið við sparifjáraukningunni. Ef svo verður, þurfum við að sækja meira af lánsfé til útlanda.

Flestir eru sammála um, að miklar og vaxandi skuldir okkar í útlöndum séu eitt allra geigvænlegasta vandamál þjóðarinnar. Ef hægt er að lina þann vanda með eflingu innlends sparnaðar, er það einna gleðilegasti árangur raunvaxtastefnu núverandi stjórnvalda.

Ennfremur verður að hafa í huga, að lækkaðir raunvextir geta leitt til þess, að sparifé verði notað til kaupa á ýmsum óþarfa, til dæmis á innfluttri vöru og þjónustu. Þannig getur vaxtalækkun verið verðbólguhvetjandi, jafnvel í meira mæli en vaxtahækkun.

Ekki eru öll ljón úr veginum, þótt stjórnvöld standist freistingar vaxtalækkunar. Við höfum dæmi frá því í fyrrahaust, að langur aðdragandi gengislækkunar olli flótta fjármagns úr lánastofnunum til kaupa á mismunandi þarfri vöru og þjónustu frá útlöndum.

Þegar gengislækkun er í aðsigi, telja menn sig ná betri raunvöxtum úr spákaupmennsku heldur en sparnaði. Og þeim mun meira sem stjórnvöld tregðast við að lækka gengið, þeim mun meira spá menn í, að gengislækkunin verði umtalsverð og gróðavænleg.

Ef gengið fellur hins vegar oft og lítið í senn, er ekkert upp úr slíkri spákaupmennsku að hafa. Við slíkar aðstæður gefa venjulegir raunvextir meira í aðra hönd. Þetta virðast stjórnvöld ekki skilja, því að þau hafa leyft dollaranum að lækka í verði að undanförnu.

Ef gengi er jafnan rétt skráð eða alls ekki skráð, er komið í veg fyrir, að spillt sé árangrinum af jafnvægi í raunvöxtum. Við erum nú á réttri leið í eflingu innlends sparnaðar. Þeim árangri má hvorki spilla með lækkun raunvaxta né frestun gengislækkana yfir í stóru stökkin.

Jónas Kristjánsson.

DV