Við erum fasistar

Greinar

Endurteknir úrskurðir Kjaradóms um laun æðstu stjórnmála- og embættismanna sýna í hnotskurn muninn á Íslandi og lýðræðisríkjunum beggja vegna Atlantshafsins. Þeir sýna leifar sýslumanna- og amtmannaríkis fyrri alda, er Íslendingar voru þegnar, ekki borgarar.

Þetta kerfi beið hnekki um mánaðamótin, þegar hætt var að sameina dómsvald og framkvæmdavald í sýslumönnum. Það lifir hins vegar góðu lífi í Kjaradómi, sem er stjórnvald, fremur en dómstóll, og neyðist til að lúta í lægra haldi fyrir æðra stjórnvaldi, ríkisstjórn.

Þótt nýlega hafi verið komið á þeirri skipan, að Alþingi sitji allt árið, var því ekki falið að fjalla um vandræðin, sem sköpuðust af fyrri úrskurði Kjaradóms. Í stað þess að biðja það um að setja ný lög um Kjaradóm, gaf ríkisstjórnin út nýja tilskipun um Kjaradóm.

Þótt ný lög um Alþingi hafi átt að gera bráðabirgðalög tæknilega óþörf, hefur komið í ljós, að ríkisstjórnir telja heppilegra að halda áfram að gefa út slík lög til þess að losna við lýðræðislegt skvaldur og málalengingar á Alþingi. Þetta er arfur frá einveldistímanum.

Í þessu máli mun Alþingi síðan standa síðsumars andspænis gerðum hlut, sem ekki er hægt að breyta frekar en öðrum bráðabirgðalögum, sem farið er að nota. Þetta er í sama anda og flest lög frá Alþingi, sem felast einkum í heimildarákvæðum handa ráðherrum.

Yfir vötnum skrípaleiksins, þar sem Kjaradómi var skákað fram og aftur, hvílir svo annað íslenzkt fyrirbæri. Það er þjóðarsáttin, ein af mörgum slíkum, sem íslenzka stórfjölskyldan hefur smíðað til að færa hagsmunasamtökin inn í sjálft stjórnkerfi ríkisins.

Með þjóðarsáttum eru gerðir kjarasamningar á línuna og ákveðinn herkostnaður þjóðfélagsins af búvörusamningum. Með þjóðarsáttum taka menn höndum saman um að reyna að frysta lífskjörin. Með þjóðarsáttum reyna menn að frysta fortíðina og framlengja hana.

Þessi árátta þjóðarsátta og bráðabirgðalaga sýnir þjóðfélag, sem ekki er lýðræðislegt. Hún sýnir þjóðfélag, sem vill í meginatriðum láta stjórna sér í samræmi við reglur ítalska fasismans, er leit á þjóðfélagið sem eina stóra fjölskyldu eða jafnvel einn stóran líkama.

Meðan nágrannaþjóðir okkar börðust fyrir lýðræði sínu, börðust forfeður okkar fyrir sjálfstæði sínu. Með sjálfstæðinu var einveldi konungs flutt inn í landið og falið í hendur innlendra smákónga. Eiginleg lýðræðisbylting hefur aðeins orðið að nafninu til hér á landi.

Tíu aldir eru síðan sagt var um Íslendinga, að engan vildu þeir hafa yfir sér nema lögin. Síðan féll þjóðveldið og í rúmar sjö aldir hefur hugsun þræls og þegns mótað þjóðarsálina. Aldrei aftur hafa Íslendingar orðið frjálsir menn að nýju og vilja raunar ekki verða það.

Menn vilja, að stjórnað sé með heimildarákvæðum og bráðabirgðalögum, svo og samráðum hagsmunasamtaka við ríkisstjórnir. Menn vilja rækta velferðarkerfi atvinnulífsins, þar sem nýjar greinar á borð við fiskeldi og loðdýrarækt eru innleiddar með opinberu handafli.

Ef okkur líkar ekki úrskurður Kjaradóms, förum við ekki leiðir nágranna okkar. Við felum ekki Alþingi að setja nýjan ramma um Kjaradóm, sem feli honum að fara eftir þjóðarsátt hvers tíma. Við birtum bara tilskipun eins og Estrup gerði í Danmörku fyrir einni öld.

Við sættum okkur við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í máli Kjaradóms af því að við erum fasistar, sem höfum ekki enn tileinkað okkur hugsun borgaralegs frelsis.

Jónas Kristjánsson

DV