Nýr samanburður á lífsháttum Íslendinga og nágrannanna á Norðurlöndum staðfestir, að við höfum að ýmsu leyti farið aðrar leiðir. Við líkjumst í mörgu fremur Bandaríkjamönnum, Kanadamönnum, Áströlum og Japönum, þar sem hlutverk ríkisins er minna.
Auðþjóðum heims má skipta í þrjá flokka. Í einum hópi eru nokkrar fámennar olíuþjóðir. Í öðrum hópi eru til dæmis Norðurlandabúar, Þjóðverjar og Hollendingar, sem hafa falið ríkinu stórt hlutverk. Í þriðja hópnum erum við meðal nokkurra annarra áðurnefndra þjóða.
Við borgum minni hluta af tekjum okkar í opinber gjöld en tíðkazt hefur á Norðurlöndum. Við minnum að því leyti meira á Svisslendinga, Bandaríkjamenn og Japani. Hér á landi er þjóðarsátt um, að fólk fái sjálft að ráðstafa töluverðum hluta aflafjár síns.
Eitt reikningsdæmanna um þetta efni bendir til, að Norðmenn og Svíar hafi 20% hærri tekjur en við, en sitji eftir með 8% lægri tekjur en við, þegar hið opinbera er búið að fá sitt. Við töpum svo mismuninum aftur á landbúnaði og háu verðlagi, en það er önnur saga.
Sjálfsbjargarviðleitni hefur löngum verið hátt skrifuð hér á landi, enda erum við veiðiþjóð. Mikill hluti þjóðarauðsins kemur frá sjávarafla og við gerum okkur grein fyrir því. Við lítum ekki svo á, að samfélagið eða ríkið sé uppspretta lífskjara okkar og velferðar.
Við viljum eiga okkar íbúðir sjálf og eigum þær. Norðurlandabúar geta hins vegar vel hugsað sér að búa í leiguhúsnæði. Við viljum gjarna vinna hjá sjálfum okkur eða í fámennum fyrirtækjum. Norðurlandabúar vilja hins vegar gjarna taka laun hjá ríkinu.
Við dýrkum vinnuna og höfum ekki á móti löngum vinnudegi. Við vinnum að meðaltali 48 stundir á viku, en Norðurlandabúar 40 stundir. Þessi munur stafar sumpart af illri nauðsyn, en einnig af því, að Íslendingar eru ekki mikið fyrir að sitja auðum höndum.
Við eigum fleiri börn en frændur okkar á Norðurlöndum. Við þurfum minna en þeir á fóstureyðingum að halda, þótt hér sé mun meira um einstæða foreldra. Við búum við nánari tengsl milli kynslóða og sterkari ættarbönd. Og við náum heldur hærri aldri en frændur okkar.
Við lifum flottar og hraðar en nágrannar okkar. Við eigum stærri íbúðir, fleiri bíla og fleiri myndbandstæki. Við förum í dýrari utanferðir. Athyglisvert er, að við stundum einnig menningarlífið betur, eins og það mælist í sölu aðgöngumiða leikhúsa og óperuhúsa.
Athyglisvert er, að við leggjum meira upp úr háskólanámi. Hlutfallslega fleiri Íslendingar stunda háskólanám en Norðmenn, Svíar og Finnar. Sumpart er það að þakka tiltölulega öflugu lánakerfi námsmanna og sumpart ber það vitni um sjálfsbjargarviðleitni.
Oft er talað um, að Íslendingar búi í taugaveikluðu þjóðfélagi mikillar vinnu, mikils hraða og lífsgæðakapphlaups. Það kemur ekki í veg fyrir þá staðreynd, að við erum ánægðari með lífið en nágrannar okkar og náum heldur hærri aldri en þeir, alveg eins og Japanir.
Við erum heppin sem þjóð að hafa ekki siglt eins langt til Stóra bróður og nágrannar okkar hafa gert. Við erum heppin að hafa lagt heldur meiri áherzlu á sjálfsbjargarviðleitni en á velferðarríki. Við erum heppin að hugsa meira um að búa til verðmæti en að dreifa þeim jafnt.
Raunar mættum við fylgjast enn betur með þjóðum á borð við Japani og Svisslendinga, sem hafa náð frábærum árangri án þess að hafa ríkið á kafi í hverjum koppi.
Jónas Kristjánsson
DV