Við erum safn af sérvitringum

Hestar

Jón á hlut í hesthúsi, nokkra hesta og ríður út meira en annan hvern dag á vertíðinni fyrri hluta ársins. Hann á tvær merar og kaupir dýrustu stóðhesta á þær. Hann er á sumarhaga í sveitinni og fer af og til í langar sumarferðir. Hann fer á allra stærstu hestamót og allar uppákomur í reiðskemmunni, kíkir á yfirlitssýningar kynbótahrossa og er málkunnugur ýmsum helztu ræktendum.

Jón væri gott dæmi um alætu í hestamennsku, ef ekki væri hin hliðin á dæminu. Hann tekur ekki þátt í félagsstarfi hestamanna, fer aldrei á innanfélagsmót, hvað þá að hann taki sjálfur þátt í þeim. Það er ekki einu sinni víst, að hann sé í hestamannafélaginu. Hann telur slíkt vera fyrir þá, sem keppa á mótum félagsins og aðstendur þeirra. En ekki fyrir sig og sína.

Anna gerir hins vegar þetta allt saman og býðst þar á ofan til að starfa fyrir félagið, þótt hún eigi ekki einu sinni börn, sem eru í hestum. Líf hennar snýst um hestamennsku almennt. Hún lætur engar hliðar þess ósnertar. En hún á sér ekki margar hliðstæður. Miklu fleiri eru þeir hestamenn, sem láta sér nægja fáar af hinum mörgu hliðum hestamennskunnar. Kannski bara eina. Hestamennskan er full af sérvitringum.

Ein tegund hestamanns er keppnismaðurinn og keppnisbörn hans. Önnur tegund er aðstandandi keppnismannsins eða keppnisbarnsins. Þessar tvær tegundir halda uppi innanfélagsmótum með því að taka þátt í keppni og horfa á keppni. Töluvert er um, að þessar tvær tegundir sinni fáum öðrum þáttum hestamennskunnar, nema kannski félagslífi. Þar tengjast þær annarri tegund hestamanns, sem sækist mest eftir félagsskap hestamanna á hátíðum og bjórkvöldum, í kaffistofum og reiðtúrum milli hestamannafélaga.

Til eru líka þeir, sem ríða út og sækjast eingöngu eftir samneyti við hesta sína. Þeir ríða stundum út með öðrum, en sjást oft einir á ferð. Enn aðrir líta á vertíðina í hesthúsahverfum eingöngu sem undirbúning sumarferða. Þegar hesturinn er farinn að geta farið Elliðavatnshringinn í rykk á tölti án þess að blása, er hann talinn útskrifaður fyrir sumarið. Svo eru hinir, sem líta niður á töltið sem hýruspor og vilja mjúka brokkara fyrir haustleitir á vegleysum, sem eru hápunkturinn í lífi þeirra. Ekki má gleyma þeim, sem hafa unun af að bardúsa í hesthúsinu, en fara sjaldan á bak eða jafnvel aldrei.

Allar þessar tegundir hestamanna og ýmsar fleiri má sjá í stórum hesthúsahverfum. Sumir eru eingöngu á einu sviði, fleiri eru á nokkrum sviðum og nokkrir á öllum. Litróf hestamennskunnar er svo fjölbreytt, að stundum er eins og menn lifi ekki í sama heimi. Einn skrifar, að hægt sé að fyrirgefa hesti allt nema lága fótlyftu. Annar telur fótlyftu vera löst á hverjum ferðagæðingi. Báðir ímynda sér, að þeir tali fyrir hönd allra. en þeir eru bara þröngsýnir.

Sá, sem leggur áherzlu á langar hestaferðir á sumrin, vill þolgóða og mjúka hesta. Þeir mega vera reistir, en ekki svo hágengir, að þeir þoli ekki langa reið eða skeki reiðmanninn í hnakknum á tölti. Í sinn hóp fussar hann og sveiar yfir kunnum keppnishlunkum, en hefur að öðru leyti hægt um sig, af því að hann veit, að hann er afgangsstærð í bransanum og græðir á því. Hann getur keypt gullmola á 400 þúsund kall, af því að ekki var hægt að framkalla 800 þúsund króna fótlyftu hjá honum.

Þessi mikla fjölbreytni hestamennskunnar er ögrun þeim, sem þjónusta hana, til dæmis forustumönnum hestamannafélaga, sem vilja ná sem flestum hestamönnum undir hatt félagsins. Þeir þurfa til dæmis að velta vöngum yfir því, hvort félagsstarfið felist of einhliða í þjónustu fyrir keppnisfólk og aðstandendur þess og hvort hægt sé að rjúfa þann vítahring, ná til allra hinna sérsviðanna, þar á meðal til afskekktra sérsviða fyrir sérvitringa.

Sama er að segja um Eiðfaxa. Hann stendur andspænis því flókna verkefni að þurfa að þjónusta hin ýmsu svið, svo að engum finnist hallað á sín áhugamál. Þar að auki þarf hann að koma jafnt atvinnumönnum sem áhugamönnum að gagni. Um nokkurt skeið hefur efnisvali blaðsins einmitt verið hagað eftir eins konar hlutfallafræði, sem tryggir ýmsum helztu sviðum hestamennskunnar ákveðna lágmarksþjónustu í hverju eintaki.

Fyrirferðarmest er ræktunin, sem fær tvöfaldan skammt, minnst átta síður í blaði. Síðan koma fimm pakkar með minnst fjórar síður hver, mót og sýningar, tamningar og þjálfun, ferðalög og náttúruskoðun, kaupsýsla og fjármál, og loks hesthús og hesthúsahverfi, reiðvegi og dýralækningar, safn ýmissa hagnýtra hluta, sem varða hinn almenna hestamann. Allir eiga að finna eitthvað við sitt hæfi í blaðinu. En þeir hljóta líka að finna sitthvað, sem höfðar ekki til þeirra.

Viðbrögð fólks við pakkanum í heild mótast eindregið af áhugasviðum þess. Þekktur hestamaður, sem er feiknalega nákvæmur í ræktun hrossa og vali stóðhesta og vandar sig í smæstu atriðum á sviði, varð sárhneykslaður á því, að Eiðfaxi skuli gera tveggja síðna úttekt á skoðunum sérfræðinga á fótabúnaði hestamanna í löngum ferðalögum. Enginn hefur áhuga á svona vitleysu, sagði hann.

Þessi nákvæmnismaður í ræktun er lokaður fyrir því, að nákvæmni þurfi líka að beita við val á fótabúnaði á fjöllum. Er hann þó mikilvægur þeim, sem þær ferðir stunda, og býður ekki upp á einfaldar og augljósar lausnir, því að aðstæður í landslagi og veðurfari eru svo misjafnar.

Forustumenn í hestamennsku eru almennt víðsýnni. Þannig hefur formaður Landssambands hestamannafélag unnið að samstarfi við opinberar stofnanir um reiðleiðir og notkun GPS-punkta. Þannig hefur hrossaræktarráðunautur ríkisins hvatt til kynbótamats á þoli og mýkt. Hvort tveggja eru mikilvæg þeim, sem hafa áhuga á langferðum á hestum.

Enda hafa menn á toppnum í bransanum oft betra útsýni yfir hinar fjölbreyttu sveitir hestamanna en sá, sem er á kafi í sínu þrönga áhugasviði og telur það vera upphaf og endimörk veraldarinnar. Á hitt ber svo að líta, að fjölbreytt úrval misjafnra sérvitringa er verðmæti í hestamennskunni, rétt eins og fjölbrett erfðaefni er verðmæti í ræktuninni.

Við megum svo ekki gleyma afskekkta bóndanum, sem innræktar hross eftir sérvitru höfði sínu, en sýnir aldrei hross og fer aldrei á hestamannamót. Ekki heldur gleðimanninum, sem fer á mót sem mannamót til að hitta fólk og skemmta sér, en veit ekkert um hestamennsku og tekur ekki eftir, hverjir komast í A-úrslit. En hann skartar kannski síðum reiðfrakka, sem hefur aldrei séð volk og svaðilfarir.

Að lokum er það þessi fyrrverandi, sem af einni eða ýmsum ástæðum er hættur, en varðveitir með sér gamlan neista. Kannski fóru börnin í annað, þegar þau stækkuðu. Hann fylgist enn með úr fjarlægð og er samvizkusamur áskrifandi að Eiðfaxa. Vonandi kemur hann fyrr eða síðar aftur úr kuldanum.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 5.tbl. 2004.