Við erum símstöð.

Greinar

Vonandi hafa lesendur Dagblaðsins ekki þreytzt um of síðustu daga á að fletta hverri síðunni á fætur annarri með kjallaragreinum frambjóðenda til alþingis. Þetta var auðvitað engin skemmtilesning, en nauðsynleg var hún.

Margt ber að hafa í huga, þegar dómur er lagður á þessar breiðsíður stjórnmála í Dagblaðinu síðustu daga og raunar vikur. Í fyrsta lagi hljóta þær að teljast skárri en breiðsíður þeirra blaða, sem birta einhliða flokksáróður.

Kjallaragreinar stjórnmálamanna voru heldur ekki birtar á kostnað annarra efnisþátta í Dagblaðinu. Þeir héldu allir sínu striki eftir sem áður. Blaðið var bara stækkað, auðvitað með miklum tilkostnaði í pappír og prentun.

Enn mikilvægara er þó, að Dagblaðið á öðrum þræði að vera eins konar símstöð skoðana þjóðarinnar. Það á að vera vettvangur skoðana stjórnmálamanna eins og annarra manna. Undan þessari skyldu getur blaðið ekki vikizt.

Sama er að segja um stjórnmálaskoðanir, sem Dagblaðið hefur birt sem “Raddir lesenda”. Þær eru einnig birtar á þeirri forsendu, að með mikilvægustu þáttum í lífi Dagblaðsins sé, að blaðið verði eins konar símstöð fyrir skoðanir.

Í kosningabaráttunni í fyrra voru Alþýðuflokksmenn duglegastir við að nota símstöðina. Dagblaðið varð undir lokin að grípa til skömmtunar til að jafnvægi næðist milli flokka. En þá var símstöðin líka ný af nálinni.

Í þetta sinn voru allir flokkar búnir að átta sig á, að í Dagblaðinu gátu frambjóðendur þeirra náð til lesendahóps út fyrir raðir flokksmanna, til stuðningsmanna annarra flokka og til óháðra kjósenda.

Fyrir bragðið náðist sjálfvirkt jafnvægi í Dagblaðinu. Allir flokkar notfærðu sér símstöðina í eðlilegum mæli og án þess að misnota hana. Fyrir bragðið þurfti blaðið sjálft ekki að grípa til neinnar jöfnunar milli flokka.

Margt hefur verið gasprað í greinaflóði þessu, svo sem tíðkast í stjórnmálaskrifum hér á landi. Hitt kom meira á óvart, að töluverður hluti flóðsins var á hærra plani en boltakastið milli flokksblaða hefur löngum verið.

Sumir frambjóðendur reyndu að rökstyðja málstað sinn í kjallaragreinum, fara hóflega í sakirnar, draga andstæð rök inn í myndina. Þeir reyndu sem sagt að tala við lesendur eins og þeir væru skyni bornar verur.

Allt er þetta spor í rétta átt, þótt stjórnmálaflokkarnir eigi enn nokkuð langt í það land, að hægt sé að tala um þá, stefnu þeirra og gerðir í fullri alvöru. Enn eru þeir í stórum dráttum að leika sér í Kardimommubæ.

Dagblaðið hefur nú eins og í fyrra ekki tekið neina afstöðu til mismunar flokkanna. Það hefur ekki mælt með neinum flokki sérstaklega, enda væri slíkt ábyrgðarhluti í þjóðfélagi, þar sem erfitt er að finna mun á gerðum flokka.

Hins vegar hefur Dagblaðið verið óvægið við að fjalla um einstaka stjórnmálamenn og um einstök atriði í stefnu og gerðum stjórnmálaflokkanna. Gagnrýni og lof af því tagi er gagnlegra en heildardómar.

Loks viljum við biðja hina flokkaþreyttu lesendur að meta það við Dagblaðið, að í síðasta blaði fyrir kosningar, á laugardaginn, gaf það lesendum algert frí frá flokkaþrasi, bæði í kjallaragreinum og lesendabréfum. Þann dag var símstöðin lokuð stjórnmálaflokkum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið