Íslendingar eru í hópi þeirra þjóða, sem veita litlu fé til varnarmála og hafa gífurlega hagstæðan viðskiptajöfnuð gagnvart Bandaríkjunum. Hvort tveggja er afar óvinsælt þar vestra. Kröfur um breytingu á þessu ástandi eru sífellt að verða háværari.
Í fyrra samþykkti fulltrúadeild bandaríska þingsins með 295 atkvæðum gegn 115 lagafrumvarp um, að þau ríki, sem hafi hagstæðan viðskiptajöfnuð gagnvart Bandaríkjunum, minnki muninn um 10% á ári og sæti ella hækkuðum tollum og innflutningskvótum.
Frumvarpið dagaði síðan uppi í öldungadeildinni, þar sem repúblikanar voru þá í meirihluta. Nú eru demókratar í meirihluta í báðum deildum og eru haftasinnaðri en nokkru sinni fyrr. Áðurnefnt frumvarp hefur verið lagt fyrir þingið á nýjan leik.
Frumvarpið endurspeglar vel vaxandi einangrunar- og haftastefnu í Bandaríkjunum. Þar vestra sæta útlendingar aukinni gagnrýni. Þeim er kennt um margt, sem aflaga fer í Bandaríkjunum. Þeir eru sagðir lifa í skjóli Bandaríkjanna og stunda óheiðarlega samkeppni.
Í rauninni stafa vandræði Bandaríkjamanna einkum af rangri stjórnarstefnu gífurlegs halla á ríkisbúskap og utanríkisviðskiptum, samfara því að þjóðin lifir langt um efni fram. Gjaldmiðill hennar er að grotna niður. Og ekki er enn séð fyrir endann á því hruni.
Hinar raunverulegu ástæður skipta þó minna máli en sú ákvörðun að kenna útlendingum um ófarir sínar, mest Japönum og Vestur-Þjóðverjum, en raunar einnig öllum öðrum, sem hafa hagstæðan viðskiptajöfnuð gagnvart Bandaríkjunum. Í þeim hópi er Ísland.
Við megum búast við, að í ár verði sett lög í Bandaríkjunum, sem skyldi okkur til að minnka hinn hagstæða viðskiptajöfnuð um 10% á ári. Það mundi gerast á þann hátt, að við minnkuðum freðfiskútflutning vestur um haf og keyptum meira af bandarískum vörum.
Að svo miklu leyti sem þetta tækist ekki, yrðum við líklega að sæta sérstökum tolli á söluvörur okkar, fyrst og fremst freðfiskinn. Ekki er ljóst, hversu hár tollurinn verður, en Bandaríkjamenn eru þessa dagana að hóta Evrópubandalaginu 200% tolli á ýmsar vörur.
Þótt okkar tollur yrði ekki nema brot af þessari hótun, yrði hann samt rothögg á freðfiskviðskipti okkar við Bandaríkin. Þau viðskipti hafa að undanförnu verið að gerast erfiðari en áður vegna verðlækkunar dollarans, sem líklega á enn eftir að lækka í verði.
Við megum því ekki treysta of mikið á Bandaríkjamarkað á næstu misserum. Við þurfum að efla freðfiskmarkað í öðrum löndum og leggja aukna áherzlu á ferskfiskinn, sem gefur okkur meiri verðmæti með minni fyrirhöfn. Það er framtíð í Vestur-Evrópu og Japan.
Í darraðardansinum, sem haftastefna Bandaríkjamanna á eftir að valda, munu umbjóðendur þeirra sennilega komast að raun um, að við beitum þá höftum í mynd innflutningsbanns á ýmsar landbúnaðarvörur, sem framleiddar eru dýrum dómum hér á landi.
Við gætum sennilega dregið úr öðrum viðskiptavandamálum okkar með því að afnema þetta bann. Bandaríkjamenn eru á kafi í ódýrum landbúnaðarvörum, sem þeir eiga erfitt með að losna við. Og við fengjum ódýrari mat en nú, betri lífskjör og minni verðbólgu.
Höfuðatriðið er, að ráðamenn okkar geri sér grein fyrir yfirvofandi viðskiptablikum í Bandaríkjunum og hefji undirbúning aðgerða til að mæta þeim.
Jónas Kristjánsson
DV