Við fljótum sofandi að feigðarósi

Greinar

Einn stærsti kaupandi sjávarafurða í heiminum, risafyrirtækið Unilever, og stærstu náttúruverndarsamtök heimsins, World Wide Fund for Nature, hafa stofnað Sjávarnytjaráð, sem hyggst gæðamerkja sjávarafurðir úr sjálfbærum stofnum, sem nýttir eru af ábyrgð.

Merking hefst síðar á þessu ári, um hálfu öðru ári eftir að Orri Vigfússon lagði opinberlega til, að Íslendingar hefðu frumkvæði að samstarfi ríkja Norður-Atlantshafs um svipaða gæðamerkingu, sem átti að ná til gæða, hreinlætis og viðnáms gegn ofveiði.

Orri vildi samstarf stjórnvalda, hagsmunaaðila og hugsjónaaðila um vottunarkerfi, sem væri byggt upp á þann hátt, að það vekti traust neytenda og héldi því. Fyrir honum vakti, að þannig væri staðið að málum, að íslenzkur fiskur vekti jákvæð viðbrögð neytenda.

Hér í blaðinu var mælt með tillögu Orra, en ráðamenn og fiskútflytjendur létu sig hana engu skipta. Hugmynd Orra fólst í að taka forustu í þróuninni, en láta hana ekki koma í bakið á sér. Nú hafa aðrir tekið forustuna, án þess að Íslendingar geti haft áhrif á þróunina.

Í umheiminum vaxa áhyggjur af slæmu og versnandi ástandi fiskstofna. Hætt er við, að neytendur slengi öllum veiðiþjóðum á sama bás og átti sig ekki á, að stofnar geta verið sjálfbærir á Íslandsmiðum og veiddir þar með ábyrgum hætti, þótt svo sé ekki alls staðar.

Þess vegna er mikilvægt að hafa helzt frumkvæði að traustvekjandi vottunarkerfi eða taka að minnsta kosti þátt í slíku, ef aðrir hafa frumkvæðið. Hingað til hafa hvorki valdamenn þjóðarinnar né hagsmunaaðilar í sjárvarútvegi viljað átta sig á alvöru málsins.

Í umheiminum aukast líka áhyggjur af vaxandi magni eiturefna í sjávarafurðum. Ekki er aðeins um það að ræða að úrgangi úr holræsum sé veitt til sjávar. Eiturgufur stíga líka upp til himins frá stóriðjuverum, þéttast síðan og falla niður í matarforðabúr hafsins.

Við þurfum til dæmis að átta okkur á, að norðurhöf eru í vaxandi mæli að mengast af PCB og díoxíni, sem eru óvenjulega illskeytt eiturefni. Ef svo fer hindrunarlaust fram, kemur að þeim vendipunkti, að erlendir neytendur hafna sjávarvöru úr norðurhöfum.

Markaðshrun er algengt fyrirbæri í verzlunarsögu heimsins. Við getum hæglega staðið einn góðan veðurdag með tvær hendur tómar, af því að umheimurinn hefur eins og hann leggur sig skyndilega hafnað því að kaupa nokkrar sjávarafurðir frá Íslandi.

Í stað þess að senda her manns til Kyoto til að mæla með sem allra mestum takmörkunum á mengun og skapa landinu þannig orð fyrir að vera róttækasta umhverfisverndarland heims, er sent þangað eymdarlið til að væla út sem allra mestar undanþágur.

Umræðan um PCB og díoxín, ofveiði og skaðleg veiðarfæri mun þróast í umheiminum, þótt við tökum ekki þátt í henni. Venjur og vilji neytenda breytast, hvort sem við reynum að hafa áhrif eða stingum höfðinu í sandinn, eins og stjórnvöld og hagsmunaaðilar gera.

Bezt er að hafa sem mest frumkvæði og hafa þannig sem mest áhrif á andrúmsloft markaðarins. Að svo miklu leyti, sem það tekst ekki eða er ekki reynt, verða menn í versta falli að fylgjast vel með stemningu markaðarins og bregðast við breyttum aðstæðum.

Hugmynd Orra um vistvænt frumkvæði Íslands var of góð fyrir þjóð, sem er svo þungt haldin af dómgreindarskorti, að hana dreymir enn um hvalveiðar.

Jónas Kristjánsson

DV