Við forðumst forvarnir

Greinar

Fyrir rúmu ári var fyrst lagt til í leiðara í DV, að Íslendingar gengju í Evrópusambandið með félögum sínum í Fríverzlunarsamtökunum. Þessi skoðun hefur nokkrum sinnum verið ítrekuð, en helztu stjórnmálamenn landsins hafa ekki einu sinni viljað láta kanna málið.

Eftir samninga Evrópusambandsins við Svía, Finna og Austurríkismenn hafa viðhorf íslenzkra ráðamanna breytzt lítillega. Ráðherrar úr báðum stjórnarflokkunum segja nú, að tímabært sé orðið að kanna, hvort heppilegt sé fyrir Ísland að sækja um aðild að sambandinu.

Við munum ekki fá eins góð kjör við næstu stækkun sambandsins og við hefðum fengið, ef við hefðum fylgt Svíum, Finnum og Austurríkismönnum. Þeir, sem fara inn núna, eru hinir síðustu, sem fá full réttindi á borð við framkvæmdastjórastöður og aðgang að formennsku.

Viðhorf íslenzkra ráðamanna endurspeglar almennt viðhorf á Íslandi, sem felur í sér, að ekki skuli leysa mál, fyrr en komið er í óefni á elleftu stund. Forvarnir eru fjarlægar okkur og ráðamönnum okkar, að minnsta kosti í stjórnmálum, viðskiptum og atvinnulífi.

Svíar vilja komast inn í Evrópusambandið til að ná áhrifum. Þeir vilja komast að stjórnvelinum til að taka þátt í að móta umhverfi sitt og lífsskilyrði fram á næstu öld. Þeir hafa markmið og vilja ekki þurfa að standa andpænis ytri aðgerðum, sem eru þeim andsnúnar.

Við höfum ekki slík markmið sem þjóð. Við erum lítið fyrir að reyna að breyta umhverfi okkar og lífsskilyrðum, heldur reynum við að mæta vandamálum, sem upp koma hverju sinni. Við höfum ekki frumkvæði og við stundum ekki efnahags- og viðskiptalegar forvarnir.

Aðgerðir Frakka gegn innflutningi á íslenzkum fiski eru gott dæmi um, hve óhagkvæmt er að einblína á viðbrögð við aðsteðjandi vandamálum. Ef við værum þegar komnir í Evrópusambandið, hefðu Frakkar ekki treyst sér til að brjóta fjölþjóðlega samninga á okkur.

Frönsk stjórnvöld eru ekki öðruvísi en meirihluti íslenzkra þingmanna, sem vilja fara í kringum fjölþjóðlega viðskiptasamninga til að vernda þrönga sérhagsmuni landbúnaðar gegn víðum hagsmunum neytenda og skattgreiðenda og útflutningshagsmunum sjávarútvegs.

Bandaríkjamenn eru nógu stórir og sterkir til að ógna Frökkum á móti, svo að þeir leggi niður rófuna. Við getum hins vegar bara hótað að kaupa ekki eina þyrlu og nokkra bíla. Sú hótun er svo lítilvæg, að Frakkar mundu bara flissa, ef hún væri sett fram í alvöru.

Við erum fáir og smáir og höfum ekki næga vernd gegn tilhneigingu fyrirferðarmikilla frekjudalla til að beygja og brjóta fjölþjóðlega viðskiptasamninga á borð við þá, sem gerðir hafa verið í Alþjóðlega fríverzlunarklúbbnum GATT og í Evrópska efnahagssvæðinu.

Í sandkassa alþjóðlegra viðskipta komast stóru strákarnir upp með ýmislegt, sem litlu strákunum líðst ekki. Eina vörn litlu strákanna er að ganga í öll fjölþjóðleg samtök, bandalög, samfélög og sambönd, sem kostur er á. Bezta vörnin gegn mafíunni er að ganga í hana.

Evrópusambandið er að stofni til verndar- og tollmúrasamband, sem hefur lengi stundað ofbeldi í efnahagslegum samskiptum við umhverfi sitt. Það verndar hins vegar þá, sem komnir eru inn, þótt litlir séu. Þess vegna hafa Frakkar ekki ráðizt gegn fiskinnflutningi þeirra.

Við höfum mikið böl af að hafa ekki vit á að stunda forvarnir á þessu sviði, heldur vera alltaf önnum kafnir að fást á elleftu stund við aðsteðjandi uppákomur.

Jónas Kristjánsson

DV