Við getum hrósað happi.

Greinar

Í þjarki okkar um erfiðleika hversdagslífsins gleymum við oft velgengninni, sem við raunar njótum. Þótt margt fari miður, eru ýmsir mikilvægir þættir þjóðlífsins í mun betra lagi hjá okkur en hjá mestu velferðarþjóðum heims. Hæst ber þar fulla atvinnu, sem greinir Ísland frá öðrum löndum. Auglýsingar eftir fólki til starfa eru fleiri en umsóknir um þau. Í kringum okkur verða þjóðir hins vegar að þola um og yfir 10% atvinnuleysi. Á Norðurlöndum er atvinnuleysið gífurlegur baggi á sameiginlegum sjóðum. Það hefur stuðlað að ofvexti ríkisþungans á herðum atvinnulífsins. Ennfremur gerir það stjórnvöldum nánast ókleift að reka framleiðnistefnu. Þar sem atvinnuleysi ríkir, er ekki auðvelt að tala um að draga úr arðlausum og úreltum atvinnugreinum í þágu nýrra og framleiðinna. Viðkvæðið þar er jafnan, að hallæris- og taprekstur sé betri en alls enginn rekstur. Hér getum við hins vegar, ef við viljum, horft til framtíðarinnar. Hér er t.d. hægt að leggja til, að hinn hefðbundni landbúnaður víki smám saman fyrir nýjum atvinnugreinum, sem ekki eru þegar ofsettar úti í heimi. Á Norðurlöndunum sem annars staðar hefur atvinnuleysið fleiri og alvarlegri afleiðingar en kostnaðinn einan. Það tætir líka í sundur þjóðfélagsvefinn og býr til stéttir fólks, sem tekur tæpast þátt í samfélaginu. Atvinnuleysi verður þar ættgengt. Félagsleg vandamál fara hamförum, einkum hjá unga fólkinu, sem ekki fær verkefni til að glíma við. Í hvert sinn, sem við opnum dagblað frá Norðurlöndum, blasa þessi vandamál við. Hér eru að vísu einnig félagsleg vandamál. Og unglingarnir hafa of lítið fyrir stafni. En í samanburði við nágrannalöndin erum við í himnaríki. Þjóðfélagsvefurinn hefur ekki rofnað. Allur þorri manna tekur einhvern þátt. Við höfum keypt þetta með verðbólgu, sem er þrisvar til fjórum sinnum meiri en annarra þjóða, svo sem raunar hefur verið í fjóra áratugi. Verðbólgan hefur leikið okkur grátt, en smám saman hefur okkur lærzt að draga úr henni tennurnar. Lengi höfum við vísitölutengt laun og skyldar greiðslur. Undanfarin misseri höfum við hikandi einnig leiðzt út í að vísitölutengja fjárskuldbindingar. Með þeim nýstárlegu afleiðingum, að bankarnir fóru að fyllast af sparifé. Stjórnvöld hafa ekki enn öðlazt kjark til að stíga þessa verðtryggingu til fulls. Og enn er lítið talað um að vísitölutengja gengið, svo að útflutningsatvinnuvegirnir megi líka njóta þess að láta verðbólguna rúlla á hliðarspori. Með fullri atvinnu og verðbólgu á hliðarspori höfum við góða aðstöðu til að fást við hin ytri skilyrði, – kreppuna, sem riðið hefur húsum um allan heim í nokkur ár. Við getum, ef við viljum, leyft okkur að hugsa til langs tíma. Að sinni er allt með kyrrum kjörum. Þjóðarframleiðslan og þjóðartekjur standa í stað. Viðskiptahallinn er að vísu að aukast úr 2,5% í 5%. En gjaldeyrisstaðan er öflugri en oft áður, dugir til þriggja mánaða í stað tveggja. Unga fólkið vex upp og þarf að fá þátt í atvinnulífinu. Til þess þurfum við aukið framtak, annars vegar meiri orkuvinnslu og stóriðju, hins vegar ýmiss konar nýiðju, t.d. rafeindaiðnað og fiskirækt, sem hentar litlum einingum. Með því gerum við gott ástand enn betra.

Jónas Kristjánsson

DV