Við getum valið verkefni

Greinar

Skortur er á vinnuafli í mörgum greinum atvinnulífsins. Þjóðhagsstofnunin gerir ráð fyrir, að alls séu um 3000 stöður lausar samanlagt í atvinnulífinu eða sem svarar nærri 3% alls mannafla í landinu. Vinnuveitendur telja þessi störf allt að tvöfalt fleiri eða 4500-6000 alls.

Við erum lánsöm að búa ekki við eitt mesta böl annarra þjóða, atvinnuleysið. Algengt er í nágrannalöndunum, að 10% þjóðarinnar séu án vinnu. Í mörgum þessara landa hefur myndast stétt ungs fólks, sem aldrei hefur haft vinnu og hefur enga von um að fá vinnu.

Atvinnuleysisböl erlendra þjóða er þeim afar dýrt. Atvinnuleysisbætur eru veigamikill liður á fjárlögum hins opinbera. Einnig fer iðjuleysið illa með fólk, ekki bara fjárhagslega, heldur fyrst og fremst andlega. Það verður sljótt og lendir utangarðs í samfélaginu.

Ofan á þetta er stórfé varið úr opinberum sjóðum til að halda uppi vinnu í úreltum atvinnugreinum, svo að ekki fjölgi enn fólki á atvinnuleysisskrá. Þetta er hið svonefnda dulda atvinnuleysi. Stjórnvöldum finnst skárra en ekki að styrkja sjónhverfingu atvinnulífs.

Þannig er haldið uppi alltof miklum landbúnaði í flestum nágrannalöndum okkar. Það er dýrasta dæmið af mörgum. Flest ríki hafa líka reynt að halda uppi skipasmíðum, stáliðju og ýmsum öðrum iðngreinum, sem hafa sætt samkeppni uppgangsríkja Suðaustur-Asíu.

Í þessu skyni er ekki aðeins beitt beinum styrkjum, heldur margvíslegum hindrunum í vegi innflutnings, svo sem verndartollum og jafnvel hreinu innflutningsbanni. Þannig láta stjórnvöld neytendur í eigin landi borga herkostnaðinn við verndun úreltra greina.

Hvenær sem grundvöllurinn byrjar að bresta undan atvinnugrein, hefja forvígismenn hennar sönginn um undirboð og óheiðarlega samkeppni útlendinga. Þeir etja stjórnvöldum landsins út í vernd, sem kallar á erlendar gagnaðgerðir og endar í viðskiptastríði.

Íslendingar eru svo heppnir að hafa tvöfalda sérstöðu í þessu efni. Í fyrsta lagi byggist efnahagslífið á útflutningsatvinnuvegum, sem þurfa hindrunarlausan aðgang að erlendum markaði. Og í öðru lagi er nóg að gera í landinu fyrir allar vinnufúsar hendur.

Fyrri sérstaðan á að gera okkur að fríverzlunarsinnum í alþjóðlegum viðskiptum. Hin síðari á að gera okkur að andstæðingum dulins atvinnuleysis í þjóðlífinu. Við þurfum að verða mun markvissari í hvoru tveggja en við erum og knýja ráðamenn okkar til meiri dáða.

Við eigum að gjalda varhug við hverju því væli, sem upp rís um meint undirboð útlendinga, sem séu að drepa íslenzk fyrirtæki. Við eigum að gæta okkar á óskum fyrirtækja og heilla atvinnugreina um ýmsar eftirgjafir og ívilnanir til að bæta samkeppnisaðstöðu þeirra.

Við eigum að sætta okkur við, að útlendingar hafi aðstöðu til að gera suma hluti betur og ódýrar en við. Á móti eigum við að hafa okkar sérgreinar eins og fiskinn til að selja útlendingum. Við eigum að verja kröftum okkar á skynsamlegan hátt, af því að við höfum val.

Við eigum til dæmis ekki að banna innflutning kjöts og mjólkurafurða, ekki að styrkja útflutning þessara afurða með uppbótum og ekki að halda uppi neyzlu þeirra innanlands með niðurgreiðslum. Við höfum 3000 lausar stöður og þurfum ekki að dulbúa atvinnuleysi.

Tækifærið er okkar, af því að við búum við umframatvinnu í stað atvinnuleysis. Við getum valið mun arðbærari verkefni en við höfum hingað til stundað.

Jónas Kristjánsson

DV