Við heiðrum skálkinn

Greinar

Við höfum ekki sendiherra í lýðræðisríkinu Japan, þótt það sé okkur mikilvægur og vaxandi markaður, sem eykur fjölbreytni útflutningsmöguleika okkar og gerir okkur minna háð tollahækkunum og öðrum viðskiptaþvingunum í Bandaríkjunum og Evrópubandalaginu.

Nýútkomin utanríkisskýrsla ríkisstjórnarinnar vekur umhugsun um, að stjórnmálasamband Íslands við önnur ríki er tilviljunum háð. Sambönd af því tagi ættu að eiga sér stoð í stjórnmálastöðu okkar og viðskiptahagsmunum og ættu að byggja markvisst á slíkri stoð.

Athyglisvert er, hve víða hefur tilefnislítið verið komið á fót stjórnmálasambandi, sem kostar fé, þótt enginn sendiherra sé á staðnum. Hrikalegur er hinn hefðbundni ferða- og veizlukostnaður í tengslum við afhendingu trúnaðarbréfa á nokkurra ára fresti.

Við höfum til dæmis stjórnmálasamband við Mongólíu, þótt við höfum hvorki átt pólitíska né viðskiptalega samleið með því ríki. Þetta samband kostar okkur dýrt ferðalag og mikinn veizlukostnað á nokkurra ára fresti, þegar skipt er um sendiherra á hefðbundinn hátt.

Miklu merkilegra er samband okkar við stjórnvöld, sem ekki mundu teljast húsum hæf á Vesturlöndum. Við höfum meðal annars stjórnmálasamband við Norður-Kóreu, þar sem við völd eru feðgar, er láta sendimenn sína stunda eiturlyfjasölu og morð í öðrum löndum.

Við höfum líka stjórnmálasamband við Kólumbíu, þar sem ríkjum ráða eiturlyfjasalar, er valda miklum hörmungum á Vesturlöndum. Hin formlega ríkisstjórn í Kólumbíu er valdalaus, enda eru menn þar myrtir átölulaust, ef þeir eru fyrir eiturlyfjasölunum.

Ekki er síður dapurlegt, að ríkisstjórn okkar heldur uppi stjórnmálasambandi við ógnarstjórn Pinochets í Chile. Um langt árabil hefur sú stjórn verið andstyggð góðra manna, á svipaðan hátt og herforingjastjórnir hafa yfirleitt verið í ríkjum Suður-Ameríku og víðar.

Sérkennilegt er samband okkar við stjórnvöld í Íran, sem eru til vandræða á öllum sviðum, svívirða mannréttindi heima fyrir, standa í styrjöld við nágranna, stuðla að mannránum og hatast við allt og alla á Vesturlöndum. Þetta samband jaðrar við sjálfspíslarstefnu.

Á listanum yfir sérstaka vini Íslands, sem kosta okkur stjórnmálasamband, eru stjórnvöld í Eþiópíu. Þau hafa hvað eftir annað framleitt í landi sínu hungursneyð af mannavöldum og hafa sýnt högum íbúanna fádæma fálæti, eins og kreddukommúnistar eru vanir.

Austurríkismenn hafa að undanförnu sætt óþægindum út af pólitískri samskiptafrystingu vegna Waldheims forseta. Þrýstingur af slíku tagi hefur áhrif. Því væri æskilegra að efla samstöðu um frystingu ýmissa glæpastjórna í Þriðja heiminum fremur en Austurríkis.

Erfitt er að draga mörkin, því að meirihluti ríkisstjórna á jörðinni er tæplega húsum hæfur. Í Mexíkó hefur glæpaflokkur verið við völd áratugum saman. Í Tanzaníu hefur ríkisstjórninni tekizt, með hjálp Norðurlanda, að breyta ríkri nýlendu í örbirgðarbæli.

Miða má við Sovétríkin, sem við verzlum töluvert við. Ef stjórn ríkis er verri en í Sovétríkjunum og viðskiptahagsmunir léttvægari, ættum við að geta neitað okkur um stjórnmálasamband. Þess vegna gætum við haldið tengslum við ríki á borð við Indland og Kenya.

Fáránlegt er að eyða fé í að sýna virðingu ýmsum heimsfrægum glæpamönnum og illmennum með því að senda fulltrúa til að afhenda þeim trúnaðarbréf.

Jónas Kristjánsson

DV