Við höfum það gott

Greinar

Við höfum gengið til góðs götuna fram eftir veg. Ævi okkar er dans á rósum í samanburði við ævi forfeðra okkar, svo langt sem rakið verður. Við eigum sum hver við erfiðleika að stríða, en þeir eru yfirleitt barnaleikur í samanburði við hörmungar forfeðra okkar.

Nánast alla sögu mannkyns hefur meirihluti fólks búið við sult og seyru, ótímabær andlát ástvina, sífelldan þrældóm og þreytu. Hér á landi bættust kuldi og hvassviðri, eldgos og skriðuföll við andstreymi almennings og komu í stað styrjalda, sem geisuðu í útlöndum.

Hefðbundin sagnfræði fjallaði ekki um líf forfeðra okkar eða annarra nútímamanna á Vesturlöndum. Hún fjallaði um örþunna skel yfirstéttar, sem var yfir almenning hafin. Þetta fór ekki að breytast fyrr en með bandaríska lýðveldinu og frönsku byltingunni.

Að baki okkar eru tvær aldir framfara almennings frá þeim atburðum, sem gerðust í Evrópu og Norður-Ameríku í lok átjándu aldar. Síðan hafa lifað sex kynslóðir af þeim þúsundum kynslóða, sem horfnar eru af hólmi og aldrei væntu betri tíðar í þessum veraldlega heimi.

Nánustu forfeður okkar kynntust hins vegar voninni um betri tíð með blóm í haga. Hver kynslóðin af annarri hefur tekið við betra búi af foreldrum sínum. Um þessar mundir trúa flestir Vesturlandabúar og þar á meðal Íslendingar, að ástandið muni batna enn frekar.

Hver byltingin á fætur annarri hefur afsannað spádóma um takmörkuð gæði lífsins. Samgöngur, verkmenntun og fjölþjóðaviðskipti hafa lagt grundvöll að síbyltingu, þar sem hver uppgötvunin rekur aðra og framkallar nýtt spor á velsældargöngu almennings.

Sjónvarp og myndbandstæki, bíll og tölva, gemsi og hljómtæki eru orðnir hlutar af því, sem kallaðar eru brýnustu lífsnauðsynjar unga fólksins á Íslandi við lok tuttugustu aldar. Sumt af þessu eru atriði, sem tæpast voru til í heiminum fyrir svo sem hálfri öld.

Fólk á frístundir á hverjum degi, frídaga í hverri viku, frívikur á hverju ári. Það hefur notið skólagöngu meira eða minna á kostnað samfélagsins og sér fram á náðuga elli í skjóli sparnaðar í lífeyrissjóðum af ýmsu tagi. Ekkert virðist geta rofið þessa samfelldu sælubraut.

Við búum í senn við verðmætasköpun markaðshyggjunnar og öryggi velferðarþjóðfélagsins. Að vísu erum við aldrei ánægð, því að hver áfangi á leið okkar veitir okkur útsýni til verkefna, sem við höfum ekki leyst. Uppfylling gamalla þarfa kallar á nýjar þarfir.

Við gætum staðið okkur miklu betur, framleitt meiri verðmæti og þétt öryggisnetið. Við gætum farið að bjóða upp veiðileyfi í sjávarútvegi. Við gætum hætt fjárhagslegum afskiptum ríkisins af landbúnaði. Við gætum tekið upp óheft utanríkisviðskipti á öllum sviðum.

Við gætum dregið úr ofurvaldi framkvæmdavalds ríkisins í þjóðfélaginu og breytt ráðherra- og embættismannalýðræðinu í venjulegt lýðræði að vestrænum hætti. Við gætum gengið í Evrópusambandið, aukið neytendavernd og tekið upp evruna sem gjaldmiðil.

Lykillinn að flestum óloknum verkefnum er að losna úr viðjum hugarfars kreppuáranna, að það sé í verkahring ríkisvaldsins að vera Fjárhagsráð, skömmtunarstjóri misjafns aðgangs miselskaðra gæludýra, eins konar úthlutunarnefnd hins daglega afla þjóðarinnar.

Eitt af öðru, hægt en örugglega, munu falla forréttindavirkin, sem bandaríska lýðveldinu og frönsku byltingunni var stefnt gegn fyrir tveimur öldum.

Jónas Kristjánsson

DV