Við lítum í eigin barm.

Greinar

Við áramót horfum við til beggja átta. Við lítum yfir farinn veg og horfum fram á veg. Við þökkum samferðafólki félagsskapinn og lofum sjálf bót og betrun á nýju ári. Við brennum út gamla árið og tökum vongóð við hinu nýja.

Sjóndeildarhringurinn er misjafnlega stór. Örlagaríkir atburðir í útlöndum, í okkar eigin þjóðlífi, í starfi eða einkalífi gera misjafnlega vart við sig í hugum okkar. Flestir hugsa mest um það, sem stendur þeim næst.

Hörmuleg valdataka hersins í Póllandi í lok ársins er flestum í fersku minni, þótt hún hafi gerzt handan við hafið og handan við járntjaldið. Við vonum, að með nýju ári verði lát á því ofbeldi, sem hefur gert Jaruzelski að þjóðníðingi.

Hér heima fyrir eru efnahagsmálin í brennidepli áramótanna samkvæmt venju. Spennan er þó minni en oft áður, af því að stjórnvöld telja að þessu sinni kleift að fresta ýmsum aðgerðum fram yfir áramótin.

Einn eftirminnilegasti atburður ársins var sameining Dagblaðsins og Vísis í þetta stóra blað, sem lesendur hafa fengið í hendur í rúman mánuð. Og í áramótaleiðara þessa sama blaðs er auðvitað freistandi að fjalla um það sjálft.

Sameinaða blaðið er enn gefið út í 38.000 eintökum, en fer sennilega niður í 34.000-35.000 eintök, þegar búið er að samræma dreifinguna. Þessari gífurlegu útbreiðslu má einnig lýsa á þann hátt, að blaðið nái til tveggja þriðju hluta þjóðarinnar.

Enn merkilegri er kannski sú staðreynd, að áskrifendur blaðsins eru 23.000 eða tveir á móti hverjum einum, sem fær það í lausasölu. Þessi háa tala stafar af, að mjög lítið var áður um, að fólk væri áskrifendur að báðum blöðunum.

Semjendur hins sameinaða dagblaðs þurfa að taka tillit til sjónarmiða tveggja lesendahópa, sem eru töluvert ólíkir. Og það reynum við að gera með því að halda öllum mikilvægum sérkennum hvors blaðs í einu stóru blaði.

Þær vikur, sem liðnar eru, sýna þennan ásetning ekki að fullu. Auglýsingaflóð jólavertíðarinnar setti efnisskipan úr skorðum. Margir efnisþættir voru skornir niður og sumir urðu ekki nema svipur hjá fyrirhugaðri sjón.

Hið jákvæða við flóðið er, að það veitir hinu sameinaða og stækkaða dagblaði fjárhagslegan mátt til að auka efnisvalið og bæta þjónustu við lesendur á nýju ári. Þess munið þið væntanlega sjá merki hér í blaðinu á næstu vikum og mánuðum.

Dagarnir milli jóla og nýárs eru engan veginn hversdagslegir, þótt auglýsingaflóðið hafi sjatnað nokkuð. Þetta síðasta tölublað er til dæmis fullt af annálum auk annars áramótaefnis, sem birtist bara einu sinni á ári.

Við væntum þess, að strax eftir áramót færist hið sameinaða dagblað í þann farveg, sem lesendur muni kannast við. Og við væntum þess, að ykkur finnist ákjósanlegt að hafa með okkur samflot við beggja skauta byr á nýju ári.

Þetta dagblað á að vera fyrir alla, unga og gamla, vinstri og hægri, konur og karla, háa og lága. Það á að vera frjáls og óháður þjóðarfjölmiðill. nytsamur ykkur öllum, lesendum og samferðafólki Dagblaðsins & Vísis.

Við biðjum ykkur að veita okkur aðhald til að efna þessi nýársloforð og segjum: Farsælt nýtt ár.

Jónas Kristjánsson.

DV