Horfur hafa batnað á því, að Vesturlönd sitji heima í sumar, þegar Moskvumenn halda lyfjaþrælasýningu undir fána Alþjóða ólympíunefndarinnar. Gíslar Halldórssynir Vesturlanda kveina að vísu og kvarta, en verða vonandi að láta undan síga fyrir ofurþunga almenningsálitsins.
Lyfjaþrælasýningin er þegar orðin marklítil, úr því að Bretar, Bandaríkjamenn og Kenyamenn segjast hvergi ætla að fara. Þar á ofan eru Vestur-Þjóðverjar komnir á fremstu nöf að hætta og yrði áróðurshátíðin þá endanlega marklaus. Norðmenn og Hollendingar voru áður farnir að tvístíga.
Fyrst eftir innrás Sovétríkjanna í Afganistan reyndu leiðtogar Frakklands og Vestur-Þýzkalands að bjarga leifum slökunarstefnunnar með því að greina milli atburða í Evrópu og Asíu. Þeir fóru undan í flæmingi, nákvæmlega eins og Chamberlain á sínum tíma.
Útlegð Sakharofs virðist hafa opnað augu ráðamanna Frakklands og Vestur-Þýzkalands fyrir því, að ekkert mark er takandi á undirskriftum leiðtoga Sovétríkjanna. Þeir nota ólympíuleikana til kerfisbundinna brota á mannréttindakafla sáttmálans frá Helsinki.
Úr því að Sovétstjórnin hunzar mannréttindasamninga sína og fer með hervaldi inn í önnur ríki, er hún jafnvís að hunza alla þá slökunarsamninga, sem hún hefur undirritað og hyggst undirrita. Innrásin í Afganistan og útlegð Sakharofs voru kornin tvö, sem fylltu skilningsmælinn.
Með fjarveru sinni frá áróðurssýningunni í Moskvu mundu Vesturlönd sýna sovézkum almenningi, að framganga sovézkra valdamanna er fyrirlitin um heim allan. Hugsanlegt er, að Sovétmenn vakni svo smám saman til vitundar um ýmsar hættur, sem fylgja heimsvaldastefnu Sovétstjórnarinnar.
Jafnframt er líklegt, að stöðvuð verði leið ólympíuleikanna niður í svaðið. Undir forustu austantjaldsríkja og með samábyrgð misviturra, vestrænna íþróttastjóra eru þessir leikar orðnir hreint hneyksli. Þeir eru bein andstaða allra hugsjóna, sem íþróttir byggjast á.
Sovézk yfirvöld fara með íþróttafólk sitt sem rómverska skylmingaþræla. Því er misþyrmt á varanlegan hátt með því að dæla í það lyfjum til að auka afköst þess á andartaki keppninnar. Og lyfjaeftirlitið í Moskvu verður algerlega í höndum sovézkra yfirvalda.
Um þetta segir Magnús Torfi Ólafsson: “Enginn, sem kynnt hefur sér atferli sovézkra íþróttayfirvalda, er í vafa um, að það tækifæri verður notað.” Hann segir líka: “Þó tekur fyrst steinninn úr, þegar kemur að dómarastörfum sovézkra keppnisdómara. Framferði þeirra er fyrir löngu alræmt…”
En það er ekki nóg fyrir Vesturlandabúa að vakna til vitundar um þetta. Það er ekki nóg að brjóta niður spillta lyfjaþrælasýningu. Um leið þarf að gefa íþróttafólki sanna leika í staðinn. Og það er hægt með litlum fyrirvara, þótt engin ein borg geti hýst alla leikana.
Stungið hefur verið upp á, að frjálsum leikum verði dreift um heiminn, þannig að hver grein verði á sínum stað, hlaup í Kenya, stökk í Bandaríkjunum o.s.frv. Hinar stóru sjónvarpsstöðvar heims mundu svo sameina alla þessa leika í beina útsendingu um gervihnetti til allra átta.
Síðan geta menn hugleitt, hvort þetta sé hið skynsamlega framtíðarform ólympíuleika sem alþjóðlegs fyrirbæris eða hvort nota beri næstu fjögur ár til að flytja leikana aftur til Grikklands. Ef til vill má sameina aðferðirnar með því að láta framvegis hina táknrænu þætti fara fram í Olympíu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið