OKKUR VANTAR AUÐVITAÐ SENDIHERRA í Túvalú, ellefu þúsund manna eyjar, sem hæst rísa fimm metra yfir sjó. Kannski getum við fengið atkvæði þar í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna áður en brotsjóir vegna náttúruhamfara færa þar allt í kaf.
VIÐ ÞURFUM LÍKA Á AÐ HALDA stjórnmálasambandi og sendiherra við merkisríki á borð við Bútan og Kirbatí, Sankti Lúsíu og Prinsípe, Tonga og Tóbagó. Fyrst þarf utanríkisráðuneytið auðvitað að finna þau á hnettinum og síðan þarf að finna laus sæti í áætlunarflugi til að kanna aðstæður á staðnum.
HÉR ER KOMIÐ VERÐUGT VERKEFNI fyrir afdankaða Framsóknar- og Sjálfstæðismenn. Einhver þarf að finna ríkin og leita þar uppi símanúmer og flugáætlanir. Svo þurfa einhverjir að fara á staðinn, auðvitað upp á áhættuþóknun, ef þeir skyldu óvart vera étnir við komuna eða látnir dansa í strápilsi.
MARKMIÐIÐ ER AÐ MYNDA BANDALAG alls óþekktra ríkja, sem við ímyndum okkur að geti lofað að láta Ísland gæta hagsmuna þeirra í Öryggisráðinu. Því miður eru þau flest fræg fyrir að víkjast undan loforðum og greiða atkvæði á vitlausan hátt, svo sem Japan komst að raun um í Hvalveiðiráðinu.
HÁSTIG SAMSTARFSINS VIÐ RÍKI á borð við Kirbatí og Tóbagó, Túvalú og Sankti Lúsíu er að koma þangað sendiherrum, sem væntanlega verða valdir úr hópi fyrrverandi þingmanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Í leiðinni þarf að veita þeim staðgóða þjálfun í að dansa í strápilsi.
NÝLEGA KOMST ÍSLAND Í EFTIRSÓTT stjórnmálasamband við Ismaíl Ómar Guelle, sem fékk 100% atkvæða sem einræðisherra í Djibútí. Hann er skárri en margir slíkir, því að hann étur ekki fólk og sýður það ekki í potti, heldur setur það bara í fangelsi, ef það kýs ekki rétt. Þar hæfir skel víst kjafti.
DV